Ákveðið að aflífa háhyrninginn

Aflífa þurfti háhyrninginn eftir að ljóst var að hann myndi …
Aflífa þurfti háhyrninginn eftir að ljóst var að hann myndi ekki nást úr firðinum í dag. Ljósmynd/Landsbjörg

Tekin var sú ákvörðun í morgun að aflífa háhyrninginn sem hafi verið strand í Gilsfirði í fimm daga. Edda Elísabet Magnúsdóttir líffræðingur segir að framan af morgni hafi aðgerðum miðað vel áfram en þá hafi vélabúnaður gefið sig. 

Var því sú ákvörðun tekin að aflífa dýrið því bíða þyrfti þar til á morgun til þess að hefja aðgerðir að nýju. 

„Það var siðferðislega rétt ákvörðun að láta dýrið ekki kveljast lengur,“ segir Edda í samtali við mbl.is. 

Lærðu mikið

Hún segir hópinn Hvali í neyð, sem stóð að aðgerðunum ásamt björgunarsveitum og heimamönnum, hafa lært mikið í dag og síðustu daga en því miður hafi ekki farið fyrir dýrinu eins og vonir stóðu til. 

„Það er alveg magnað hversu tilbúnir heimamenn voru að leggja hönd á plóg við að aðstoða okkur í þessum aðgerðum,“ segir Edda og þakkar öllum þeim sem liðsinntu hópnum. 

Matvælastofnun hafði frumkvæði að aðgerðunum en Landhelgisgæslan, Landsbjörg, sveitarfélagið, Hafrannsóknastofnun og hvalasérfræðingur frá Háskóla Íslands komu einnig að þeim. 

Edda segir að dýrið hafi verið við viðunandi heilsu undanfarna daga en að það hafi þó þurft að þola mikið álag. 

Þetta er í annað skipti á einni viku sem háhyrningur strandar í firðinum. Fyrir viku var háhyrningur þar strand en komst á flot með aðstoð Hvala í neyð aðfaranótt laugardags. Edda segir að ekki sé um sama dýr að ræða. 

mbl.is