Óánægju hefur gætt með þá ákvörðun Icelandair að rukka börn óháð aldri um 9.900 krónur sem koma í fylgd með foreldrum sínum í Saga Lounge í Leifsstöð.
Maður sem hefur nýtt sér aðgang í Saga Lounge setti sig í samband við mbl.is og hafði þessa sögu að segja:
„Við vorum á ferðalagi 15. september síðastliðinn með Icelandair, ég og kærasta mín ásamt 5 mánaða gömlu barni. Við höfðum einnig ferðast fyrr í sumar þá einnig með Icelandair og fórum þá einnig í Saga Lounge. Við erum bæði með premium-kort Icelandair (borgum samtals árgjald 71.800kr). Við fengum okkur þetta kort nýlega þar sem það býður upp á góðar ferðatryggingar og við komumst í Saga Lounge þegar við ferðumst með Icelandair.“
Frásögnin heldur svo áfram:
„Fyrr í sumar var þetta ekkert mál. Við fórum inn án vandræða. Núna 15. september þá fengum við þær upplýsingar að við þyrftum að borga aukagjald.
Fyrst hélt ég að væri verið að tala um kærustu mína en ekki 5 mánaða dóttur mína sem var sofandi í „magapoka“ framan á mér. Starfsfólkið sagði að það þyrfti að borga 9.900 kr. óháð aldri. Það sagðist dauðskammast sín yfir þessu en að það hefði fengið skýr fyrirmæli frá yfirmönnum að rukka þessa upphæð.
Það sagði að því hefði borist mikið af kvörtunum frá fólki sem ferðast með börn. Þetta séu nýjar reglur sem hafi komið í sumar. Okkur var boðið að bíða frammi fyrir utan með barnið og skiptast svo á að fara inn í Saga Lounge. Ég vildi augljóslega ekki borga fyrir inngöngu 5 mánaða dóttur minnar og við slepptum því að nýta Saga Lounge.“
mbl.is leitaði viðbragða hjá Icelandair og í skriflegu svari frá Guðna Sigurðssyni, samskiptastjóra flugfélagsins, segir:
„Það er rétt að handhafar kreditkorta sem bjóða aðgang Saga Lounge hafa aðgang fyrir sjálfa sig en þurfa að greiða fyrir gest, óháð aldri gestsins. Icelandair fær reglulega góðar ábendingar um þjónustuframboðið og þessi ábending verður tekin til skoðunar hjá félaginu.“