„Þetta er mjög seigfljótandi“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vaxtahækkanir Seðlabankans eru farnar að bíta mjög verulega og þær hafa lagst þungt á tiltekna hópa. Miklu skiptir að verðbólgan gangi niður til að hér skapist forsendur til að lækka vexti á nýjan leik.

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun, spurð út í tíðindin frá því í gær um hækkun tólf mánaða verðbólgu í 8%.

Fóru yfir húsnæðisliðinn

Katrín sagði innlenda og erlenda matvöru vega þungt í nýjustu mælingunni, auk þess sem húsnæðisliðurinn sé alltaf þungur. Hann hafi m.a. verið ræddur á fundi þjóðhagsráðs fyrr í vikunni.

„Þar fórum við yfir húsnæðislið vísitölunnar og útreikning á honum og þær skýrslur sem gerðar hafa verið um þau mál, hvernig hann er reiknaður og hvernig hann skilar í raun og veru skammtímasveiflum á húsnæðisverði inn í vísitöluna. Þannig að það er til skoðunar,” greindi Katrín frá en var sammála því að verðbólgan lækkaði ekki nógu hratt.

„Þetta er mjög seigfljótandi. Auðvitað vonast ég eftir því að þetta gangi hraðar en ég vil líka viðurkenna að þetta er í samræmi við spárnar um að hún yrði þrálát og færi hægt niður. Við getum líka horft til þess að það eru líkur til þess að hún lækki áfram á árinu.”

Samfylkingin hefur kallað eftir auknum aðgerðum ríkisstjórnarinnar til höfuðs verðbólgunni. Spurð hvort nýr aðgerðapakki sé væntanlegur sagði Katrín ríkisstjórnina þegar hafa skilað umfangsmiklum aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum. Slíkt skipti miklu máli, fyrir utan tekjuöflun ríkisstjórnarinnar.

„Þau eru fyrst og fremst að kalla eftir auknum útgjöldum en það er líka flókið á verðbólgutímum. Við teljum að það þurfi að markmiðasetja þau útgjöld mjög vel þannig að þau nýtist þeim sem mest þurfa á þeim að halda,” svaraði Katrín.

mbl.is