Ari Alexander Guðjónsson, yfirkokkur hjá Tokyo Sushi, vísaði taílenska öldungadeildarþingmanninn Porntip Rojansunan út af veitingstað Tokyo Sushi í Kópavoginum. Ari streymdi atburðinum í beinni útsendingu á Facebook-síðu sinni en í myndskeiðinu má heyra hann segja að Rojansunan hafi skaðað Taíland gífurlega.
Taílenski fréttamiðillinn PBS greinir frá þessu en Ari sagðist ekki vilja tjá sig um málið þegar að mbl.is setti sig í samband við hann í dag. „No comment,“ sagði hann. Ari er af taílenskum uppruna.
Myndskeiðið sem Ari birti er ekki lengur aðgengilegt en að því sem fram kemur í grein PBS um málið byrjaði hann að streyma myndskeiðinu í ökutækinu sínu á leiðinni á staðinn. Á hann að hafa sagt í streyminu að hann vissi til þess að manneskja sem hann hataði væri nú á Tokyo Sushi.
Að því sem fram kemur sagðist Ari hafa verið mikill aðdáandi Rojansunan þegar hann var yngri og að hann hafði keypt bækur eftir hana áður en að hún eyðilagði landið. Í grein PBS er talið að óánægja Ara gagnvart Rojansunan sé sprottin upp frá því að Rojansunan hafi lýst yfir andstöðu sinni gagnvart stjórnmálaflokki sem vill minnka áhrif konungsfjölskyldunnar þar í landi.
Þegar að Ari kom á veitingastaðinn sagði hann þingmanninum að yfirgefa staðinn og tilkynnti hópnum sem hún var með að þau mættu borða hjá Tokyo Sushi svo lengi sem hún myndi ekki borða þar.
„Þú átt ekki heima hér, farðu af veitingastaðnum mínum,“ sagði hann við Rojansunan. Myndskeið Ara á Facebook vakti mikla athygli og fékk bæði jákvæð og neikvæð viðbrögð frá áhorfendum sem voru ýmist sammála eða ósammála Ara. Facebook-síðu Ara hefur nú verið lokað.
Rojansunan kom til landsins þann 21. september en fer aftur heim til Taílands í dag eftir að hafa lokið áætlunarverki sínu sem var að sjá norðurljósin.