Í tæpa öld stóðu afkomendur Rannveigar Torp Böðvarsson á Akranesi, sem lést 2005, í þeirri meiningu að hún hefði verið dóttir Pálma Hannessonar, rektors MR, enda kom það fram á fæðingarvottorðinu. Á síðasta ári kom hins vegar annað í ljós.
Afkomendurnir höfðu aldrei dregið faðernið í efa. Helga Ingunn Sturlaugsdóttir, yngsta barn Rannveigar og eiginmanns hennar, Sturlaugs H. Böðvarssonar, útgerðarmanns á Akranesi, segir eldri systkini sín að vísu hafa heyrt einhvern orðróm um að móðir þeirra væri rangfeðruð en enginn tók mark á því. „Við höfum alltaf verið ánægð og stolt af því að vera skyld Pálmafjölskyldunni,“ segir Helga. Móðir Rannveigar var Matthea Kristín Pálsdóttir en hún lést langt fyrir aldur fram árið 1946. Kjörfaðir Rannveigar var danskur maður, Christian Evald Torp.
Í fyrra fór á hinn bóginn í gang óvænt atburðarás. Sveinn Sturlaugsson bróðir Helgu féll frá og í erfisdrykkjunni barst í tal hversu ólíkar þær væru, fjölskylda Rannveigar og fjölskylda Pálma. Það varð til þess að Haraldur Sturlaugsson, bróðir Helgu, og Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, barnabarn Pálma rektors, ákváðu að taka af öll tvímæli og skella sér í DNA-próf. Ingibjörg Ýr er einnig afkomandi Þórarins heitins Guðmundssonar fiðluleikara og Önnu Ívarsdóttur, eiginkonu hans, og þegar hún fór að segja mömmu sinni, Ágústu Guðmundsdóttur, sem er barnabarn Þórarins og Önnu, frá DNA-prófinu tók málið skyndilega sveig.
Ágústa dró þá fram ljósmynd af þýskum fiðluleikara, Fritz Peppermüller, sem hún fullyrti að væri blóðfaðir Rannveigar. Anna, amma Ágústu, hafði varðveitt þessa mynd frá því um miðjan þriðja áratuginn og áður en hún féll frá bað hún Ágústu fyrir hana með þeim fyrirmælum að hún skyldi koma henni á framfæri við fjölskyldu Rannveigar þegar rétti tíminn kæmi. Og þarna var hann kominn.
„Ágústa hafði löngu fyrr sýnt börnum Pálma, það er hálfsystkinum mömmu, myndina en var þá eindregið hvött til þess að geyma hana bara áfram, ekki væri ástæða til að rugga þessum báti,“ segir Helga. Þar við sat. „Ætli hún hafi ekki bara hreinlega verið að bíða eftir einhverju merki. Og þarna kom það. Það var Ágústu mikill léttir að afhenda okkur myndina og svipta þar með hulunni af leyndarmálinu. Við verðum henni ævinlega þakklát.“
– Hvernig þekktu Þórarinn og Anna Fritz Peppermüller?
„Hann kom hingað árið 1923 á vegum Jóns Leifs tónskálds ásamt tveimur öðrum þýskum hljóðfæraleikurum til að freista þess að lyfta upp tónlistarlífinu í landinu og var hérna í nokkra mánuði. Á þeim tíma kynntist hann Þórarni og Önnu vel og myndina sendi hann þeim ásamt handskrifaðri kveðju þegar hann var farinn aftur heim til Þýskalands með þakklæti fyrir góð kynni og viðgjörning,“ svarar Helga.
Fritz lést árið 1965 en eftir mikla leit komust Helga og fjölskylda hennar að því að hann á tvö börn á lífi í Þýskalandi, Ann-Marie og Axel, sem þá eru hálfsystkini Rannveigar.
Haft var samband við Ann-Marie, sem nú ber ættarnafnið Truhart, og Tönju dóttur hennar, sem snemma varð helsti tengiliðurinn við „nýju“ fjölskylduna á Íslandi.
„Þeim brá að sjálfsögðu verulega enda höfðu þær aldrei heyrt að Fritz hefði eignast dóttur á Íslandi, hvað þá að þær ættu þessa risastóru fjölskyldu hérna. Afkomendur mömmu eru um 80 talsins og um 130 með mökum og öllu galleríinu. Þeim féllust hendur yfir öllum þessum fjölda,“ segir Helga brosandi.
Til að hjálpa mæðgunum og þeirra fólki að setja sig betur inn í málið útbjó Helga myndabók handa þeim með upplýsingum um öll börn Rannveigar og fjölskyldur þeirra. „Þær eru smám saman að læra á þetta en þykir skrýtið að ég þekki allt þetta fólk með nafni.“
Til að taka af öll tvímæli fóru Helga og AnnMarie í DNA-próf og niðurstaðan var afdráttarlaus, 99,93% líkur á að þær væru skyldar.
Ann-Marie og Tanja hafa verið mjög jákvæðar, að sögn Helgu, og reynt að upplýsa íslensku fjölskylduna efir föngum. „Tanja fæddist reyndar eftir að afi hennar dó en Ann-Marie hefur verið mjög hjálpleg við að fylla inn í eyðurnar. Allt bendir til þess að Fritz hafi verið mjög góður maður; okkur hefur alla vega ekki mislíkað neitt sem við höfum heyrt um hann,“ segir Helga.
Nánar er fjallað um þetta merkilega mál í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.