Skyndiflóð herjuðu á New York-borg í gær og því var lýst yfir neyðarástandi. Íslendingur í New York segir miður að náttúruvá geri oftar við sig vart í borginni en segir aftur á móti að borgarbúar hafi margir ekki leyft vatnsveðrinu að hrjá sig, vegna ákveðins „töffara-mentality“.
Hin tvítuga Auður Ína Björnsdóttir hefur verið búsett í New York frá því 2018 og býr á austanverðri Manhattan-eyju. Hún leggur nú stund á sálfræðinám við Macaulay Honors College í Hunter-háskóla í New York-borg.
Sjálf hefur hún ekki lent í miklum vandræðum sökum veðurs en varð þó vitni að hellidembunni sem gerði borgarbúum lífið leitt í gær. Loka þurfti nokkrum línum í neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar og aflýsa mörgum rútuferðum.
„Ég er ekkert búin að lenda í neinu svakalegur, sem betur fer,“ segir Auður Ína, oftast kölluð Ína, í samtali við mbl.is. „Ég er bara heppin að búa á þeim stað sem ég er á. En skólinn minn lendir alltaf illa í þessu þegar svona gerist.“
Þá hafi veðrið einnig haft mun verri áhrif í Brooklyn heldur en á Manhattan, en í Brooklyn náði flóðið mörgum upp að hnjám, eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan sem vinur Ínu tók í gær.
Á sama tíma flæddi ekki eins mikið á norðaustanverðri Manhattan-eyju.
Ína harmar að náttúruvá sé farin að gera æ oftar vart við sig í borginni sökum loftslagsbreytinga – t.d. núna með skyndiflóðunum og í sumar þegar reykmökkur lá yfir borginni í kjölfar gróðurelda í Kanada. Hún minnist einnig fellibylsins Ídu sem herjaði á New York haustið 2021.
„Þetta er að verða verra og verra með árunum,“ segir hún en bætir þó við að skyndiflóðin í gær hafi ekki verið eins slæm og fellibylurinn mikli árið 2021.
„Það kemur eitthvað svona flóðaatvik einu sinni eða tvisvar á ári og þetta er í rauninni bara hræðilegt, því þetta stíflar flestar gönguleiðir sem við þurfum að nota til þess að komast á milli staða,“ segir New York-búinn.
Ína segist aftur á móti ekki hafa tekið eftir því að færri hafi verið á götunum, „sem kom mér alveg á óvart þar sem neyðarástandi var lýst yfir,“ segir hún.
„Það var alveg svipað margt fólk en meira af kannski reiðum bílsjórum – þeir eru það reyndar yfir höfuð í New York – en það var bara allt stopp. Maður komst ekkert því það var alltaf einhver staður sem var á floti.“
Telur Ína þó flesta New York-búa hafa ákveðið „töffara-mentality“, sem hafi komið þeim í gegnum skyndiflóðin. „Ef þeir þurftu að gera eitthvað þá bara syntu þeir í gegnum vatnið til að komast á þá staði sem þeir þurftu að komast á.“
„En það eru margir pirraðir að við fengum ekki að vita af þessu fyrr. Við fengum bara tilkynningu um morguninn í gær, þegar margir voru farnir í vinnuna og í skólann. Það var eiginlega ekki hægt að taka neinar lestar eða rútur sem langflestir New York-búar þurfa til þess að komast á sinn stað,“ segir Ína að lokum.