„Ég kom ekki betri maður til baka“

Reynir var fjórtán ára þegar hann sneri aftur til fjölskyldu …
Reynir var fjórtán ára þegar hann sneri aftur til fjölskyldu sinnar í Hafnarfjörðinn. Samsett mynd/Aðsend/Skapti Hallgrímsson

Dvöl Reynis Ragnarssonar á vistheimilinu Hjalteyri var martröð líkust. Barsmíðar, andlegt ofbeldi og hungur einkenndu þau ár sem hann dvaldi á heimilinu. Hryllingur sem átti eftir að setja mark sitt á líf hans til frambúðar.

Reynir, sem er 63 ára, býr nú á dvalarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri. Hann hefur alla tíð átt í erfiðleikum með að halda vinnu sökum áfengisfíknar. Hann bragðaði fyrst á víni 14 ára gamall, stuttu eftir að hann losnaði af Hjalteyri, og hefur glímt við alkóhólisma frá því á unglingsárum.

Hann segir dvölina hafa haft skaðleg áhrif á sálarlífið og ekki síður virðingu sína. Aldrei hafi honum verið boðið að sækja áfallahjálp vegna misgjörðanna sem hann upplifði á heimilinu. 

Hann segir marga hafa kvartað undan meðferðinni á heimilinu en yfirvöld ekki hafa hlustað fyrr en fjallað var um málið í fjölmiðlum fyrir tveimur árum.

„Þetta eyðilagði lífsárin mín,“ segir Reynir um dvölina á Hjalteyri. 

Peningar bæti ekki tjónið

Hjalteyri í Hörgársveit er margumtalað fyrir illa meðferð á þeim börnum og unglingum sem þar voru vistuð.

Vistheimilið rataði í fréttir haustið 2021 þegar að hópur fólks steig fram og lýsti meðal annars grófu trúarlegu-, andlegu-, líkamlegu- og kynferðisofbeldi, sem það hafði annað hvort upplifað eða orðið vitni að á meðan dvöl þeirra stóð.

Í kjölfarið skipaði dómsmálaráðherra starfshóp um barnaheimilið sem átti að fara í saumana á starfsháttunum sem þar voru viðhafðir. Hefur hópurinn skilað niðurstöðum sínum til ráðuneytisins.

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir tímabundnu 410 milljónum króna framlagi til uppgjörs á sanngirnisbótum vegna misgjörða á heimilinu.

Að sögn Reynis var átakanlegt að rifja upp þær slæmu minningar þegar fjallað var um heimilið í fréttum en segist hann jafnframt þakklátur að málið skyldi fá athygli.

Peningabætur geti þó aldrei bætt upp fyrir það tjón sem hann varð fyrir á Hjalteyri. 

Prakkari sendur á vistheimili

Reynir ólst upp í Hafnarfirði og er einn af sex systkinum. Hann var sendur á Hjalteyri tólf ára gamall og kom til baka fjórtán. Reynir lýsir sjálfum sér sem prakkara en hann var sá eini úr systkinahópnum sem sendur var norður í Hörgársveit.

„Mamma var með sex börn og réði ekkert við okkur. Hún sendi mig á Hjalteyri í gegnum prestinn í Hafnarfirði. Þau héldu að þau væru að gera gott. Þetta átti að vera kristilegt heimili en var það ekki,“ segir Reynir og bætir við: „Þetta var alveg hryllingur í tvö ár.“

Hann minnist þess að hafa verið laminn og barinn með svipu og leðurbelti. „Þetta voru svakaleg svipuhögg. Ég var oft allur marinn og blár.[...] Það var nánast á hverjum degi alltaf einhver laminn.“

Reyndi oft að strjúka

Hugsaðirðu oft um að komast burt?

„Já. Ég reyndi oft að strjúka en tókst það bara ekki.“

Hvað gerðist þegar að þú reyndir að strjúka?

„Þá var komið og náð í mig. Þegar að ég var allt í einu horfinn þá fóru þau af stað í að leita að mér og fundu mig alltaf á þjóðveginum.“

Spurður hvort vinir hans sem hann kynntist á heimilinu hafi einhvern tíman gert tilraun til að strjúka með honum, svarar Reynir því neitandi.

Tekinn og píndur

„Svo var alltaf einhver fenginn til að syngja í hádeginu, ef ég neitaði þá var ég tekinn inn í eldhús og píndur og fékk ekkert að borða.“

Og gerðist það oft?

„Já, ég var alltaf valinn til að syngja. Ég söng svo vel. En ég vildi það stundum ekki. Ég var bara tekinn og píndur og fékk ekki að borða.“

„Svo áttum við að passa litlu krakkana og ef þeir pissuðu undir þá áttum við að skipta á rúminu og rassskella þá en ég gerði það aldrei. Ég skipti bara um á rúminu og þóttist hafa rassskellt þá annars hefði ég verið laminn sjálfur,“ segir Reynir stoltur og minnist þess að hafa hitt börnin síðar meir þegar þau voru vaxin úr grasi. Vottuðu þau honum þá þakklæti sitt fyrir að hafa óhlýðnast fyrirmælunum.

Drekkja sorgunum og kvölunum

Reynir flutti aftur til fjölskyldu sinnar í Hafnarfjörðinn fjórtán ára gamall og héldu prakkarastrikin þá áfram.

Hvernig var tilfinningin að losna?

„Hún var góð en ég kom ekki betri maður til baka.“

Reynir fór skömmu síðar að vinna í Vinnslustöðinni í Hafnarfirði áður en hann byrjaði að læra matreiðslumanninn. Í framhaldinu starfaði Reynir m.a. á Hótel Valhöll á Þingvöllum, Ránni við Skólavörðustíg, Staðarskála og Hótel Esju svo dæmi séu nefnd.

Þegar Reynir var nítján ára féll faðir hans fyrir eigin hendi. Var hann þá þegar farinn að glíma við áfengisfíkn og varð áfallið ekki til þess að hann kæmist á beinu brautina.

„Ég var oft rekinn fyrir fyllerí. Ég var bara að drekkja sorgunum og kvölunum.

Hefur þú einhvern tíman náð að vinna úr þessari lífsreynslu?

„Ég ræði stundum við 1717 um þetta, Rauða krossinn. Þá líður mér alltaf aðeins betur á eftir. Ég fékk aldrei neina áfallahjálp.“

Vill komast nær fjölskyldunni

Reynir hefur nú verið á dvalarheimili í fjögur ár. Hann segist vera í samskiptum við fjölskyldu sína á hverjum degi.

Hann á eina dóttur og eitt barnabarn auk þess sem hann heyrir reglulega í systkinum sínum og móður.

Hann segir það fara vel um sig á Klausturhólum, þar sem hann sé meðal annars með flatskjá og tölvu, en hann sé þó ansi langt í burtu frá fjölskyldunni. Er hann nú á biðlista eftir plássi á dvalarheimili á Selfossi til að komast nær ástvinum sínum sem búa flestir á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Loka