Vísað úr landi fyrir faðmlag

Úr heimildarmyndinni Belonging.
Úr heimildarmyndinni Belonging.

„Árið 2018 heyrði ég af 21 árs gömlum strák frá Bandaríkjunum sem verið var að vísa úr landi fyrir að faðma pabba sinn bless. Strákurinn, sem heitir Mikel, var að útskrifast úr háskóla í New Jersey, þar sem hann ólst upp frá fjögurra ára aldri. Hann fæddist í Albaníu. Fyrir „ólöglega faðmlagið var Mikel ákærður í fimm liðum og færður fram fyrir dómara sem lét að lokum allar ákærur niður falla,“ segir Sævar Guðmundsson um heimildarmynd sína Belonging sem frumsýnd verður á RIFF í dag kl. 15.30 í Háskólabíói.

Þrátt fyrir niðurfellinguna var Mikel stungið í fangelsi. Hann hélt að hann kæmist kannski heim daginn eftir en síðan leið dagurinn og dagarnir urðu að vikum og ekkert gerðist. Hann missti af lokaprófinu í skólanum. Mánuður leið og enn sat hann læstur inni í fangaklefa án þess að vera með nokkurn dóm á sér og án þess að vita hvenær hann kæmi til með að losna.

Sævar Guðmundsson leikstjóri.
Sævar Guðmundsson leikstjóri. mbl.is/Hallur Már


„Eftir að hafa setið inni með nauðgurum og morðingjum í sex mánuði var honum loks sleppt,“ segir Sævar. „Nú fengi hann að fara heim, að hann hélt. En í staðinn er hann keyrður út á flugvöll þar sem tveir fulltrúar yfirvalda flugu með hann til Albaníu og skildu hann eftir á flugvellinum í Tirana. Þar þarf hann að koma undir sig fótunum, finna nýja vini, kynnast menningunni og læra tungumálið um leið og hann reynir að finna leiðir til að komast til baka.“

Eftir sýninguna mun Mikel sjálfur sitja fyrir svörum ásamt systur sinni sem sem var aðeins 11 ára gömul þegar hann þurfti að skilja hana eftir í Bandaríkjunum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka