Guðbjörg R. Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Grundarheimilunum, segir að eftir að gjaldtaka hafi verið sett á alls staðar í kringum Grund hafi starfsfólkið þar þurft að borga tæpar 1.800 krónur fyrir að leggja bílunum sínum á meðan það er við vinnu.
„Við teljum þetta ótækt. Við höfum reynt að ræða málið við bæði samgöngustjóra Reykjavíkurborgar og bílastæðasjóð. Við höfum sent inn formleg erindi til beggja aðila og svörin sem við höfum hingað til fengið miða að því að ekkert sé hægt að gera fyrir okkur,“ segir Guðbjörg í samtali við mbl.is.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bauð fyrr í dag bræðrunum sem reka Kjötborg í kaffi að ræða bílastæðamálin og sagði frá því á Facebook.
„Þannig sáum við okkur leik á borði að bjóða borgarstjóra í kaffi fyrst hann er að sækjast eftir kaffisamsæti með rekstraraðilum vegna málsins.“
Guðbjörg segir í samtali við mbl.is að Dagur hafi virst taka vel í erindið.
„Það er bara frábært og við vonum að það komi eitthvað gott út úr því samtali. Aðstæður eru með þeim hætti að fólkið sem er með lögheimili á Grund gæti aldrei búið þar ef ekki væri fyrir starfsfólkið. Það þarf að taka tillit til þess,” segir Guðbjörg.