Ekki pólitísk ákvörðun að veðja á borgarlínuna

Einar Þorsteinsson segir Borgarlínuna vera þann valkost sem sérfræðingarnir hafi …
Einar Þorsteinsson segir Borgarlínuna vera þann valkost sem sérfræðingarnir hafi lagt til. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ætlum við að fjölga akreinum eða koma fleira fólki fyrir á þeim akreinum sem fyrir eru?“ sagði Einar Þorsteinsson, verðandi borgarstjóri og oddviti Framsóknar, spurður út í borgarlínuna margumtöluðu á fundi Framsóknarmanna um hús­næðis- og sam­göngu­mál á höfuðborg­ar­svæðinu fyrr í dag.

Einn fundarmaður spurði Einar, sem sótti fundinn með fjarfundarbúnaði, hvort að það væri raunhæft að litið væri til lausna eins og borgarlínunnar undir þeim formerkjum að aðrar Evrópuborgir væru með álíka almenningssamgöngur án þess þó að taka það með í reikninginn að þær væru margfalt þéttbyggðari en Reykjavík. Þörfin því mögulega önnur í Reykjavík.

Sagði Einar þá að þetta hefði verið skoðað til hlítar af sérfræðingum sem væru sammála um þessa lausn. Staðreyndin væri sú að íbúafjöldi hefði vaxið svakalega í borginni og að líta þyrfti til þess.

„Við erum að glíma við vöxt. Hvernig ætlum við að byggja innviði borgarinnar með því að efla ekki almenningssamgöngur? Kannski finnst einhverjum það falleg sýn að dreifa byggð borgarinnar svakalega en ég er bara ekki þar,“ sagði Einar meðal annars og bætti við:

„Það er ekki pólitísk ákvörðun að veðja á almenningssamgöngur. Það voru sérfræðingar sem komust að þessari niðurstöðu og ég treysti þeim. Ætlum við að fjölga akreinum eða koma fleira fólki fyrir á þeim akreinum sem fyrir eru.“

Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknar, sat á fremsta bekk ásamt …
Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknar, sat á fremsta bekk ásamt Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
Opinn fundur Framsóknar á Grand hótel var vel sóttur.
Opinn fundur Framsóknar á Grand hótel var vel sóttur. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Loka