Fer fram á 8 ára fangelsi yfir Alexander Mána

Farið er fram á 8 ára fangelsi í Bankastræti Club-málinu.
Farið er fram á 8 ára fangelsi í Bankastræti Club-málinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ákæruvaldið í Bankastræti Club-málinu fer fram á 8 ára fangelsi að lágmarki yfir Alexander Mána Björnssyni, vegna hnífaárásar gegn þremur fórnarlömbum á Bankastræti Club. 

Mat ákæruvaldsins er að nægar sannanir séu til staðar til að halda því fram að þarna hafi verið gerð tilraun til manndráps. Hending ein hafi ráðið því að hnífstungurnar hafi ekki valdið bana.

Algjör hending hafi ráðið för 

„Algjör hending hvar hnífurinn lenti hverju sinni. Atlagan var sérstaklega hættuleg. Það er mat ákæruvaldsins að það væri líklegt að hún gæti valdið bana,“ sagði m.a. í máli Dagmarar Aspar Vésteinsdóttur, fulltrúa héraðssaksóknara. 

Engu skipti þótt Alexander hafi verið undir áhrifum vímuefna. Hann hafi beitt miklu afli við stunguárásina og stungið ítrekað, þrátt fyrir að honum hafi ekki stafað nein ógn af fórnarlömbunum. Eins glími brotaþolar enn við afleiðingar árásarinnar. 

Þá rauf hann skilorð og skeytti engu um afleðingarnar að sögn Dagmarar.

Ekki gerð krafa en vísað í dómafordæmi

Varðandi hina sakborningana 24 þá eru 10 ákærðir fyrir alvarlega líkamsárás og 14 fyrir hlutdeild í árásinni. Ekki er gerð krafa um neina sérstaka refsingu en vísað í dómafordæmi sem er allt að 20 mánaða fangelsi fyrir alvarlega líkamsárás. 

Fyrr í dag breytti Alexander framburði sínum og dró í morg­un játn­ingu sína til baka í einu stungu­árás­ar­mál­inu á skemmti­staðnum.

Hafði Al­ex­and­er Máni áður viður­kennt að hafa stungið tvo af þeim þrem­ur sem hlutu stungusár í árás­inni.

Játn­ing­in sem dreg­in var til baka snýr að árás á eitt fórn­ar­lambanna þar sem slagæð fór í sund­ur vegna stungu í læri. Mátu læknar það sem svo að árás­in hefði verið lífs­hættu­leg.

mbl.is
Loka