„Hvaðan koma þá hinar 18 stungurnar?“

Aðalmeðferð Bankastræti Club-málsins fer fram í Gullhömrum.
Aðalmeðferð Bankastræti Club-málsins fer fram í Gullhömrum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verjandi Alexanders Mána Björnssonar, sem ákærður er fyrir tilraun til manndráps, gagnrýnir rannsókn lögreglu í málinu harðlega og segir hana í skötulíki. Allir angar málsins hafi ekki verið skoðaðir. 

Málvörn hans gengur út á að sanna að fleiri hnífum hafi verið beitt við árás á þrjú fórnarlömb í málinu. Þá hafnar verjandi því alfarið að hann hafi beitt hnífnum með afli, líkt og kom fram í máli sækjanda. „Þvert á móti sjái það allir sem vilja og aðgang hafa að upptökum sem liggja fyrir í málinu að Alexander beitt hnífnum ekki af neinu afli,“ segir Ómar fyrir dómi.

Réttur hnífur eftir árásina

Verjandi Alexanders Mána er Ómar R. Valdimarsson. Sagði hann að ekki væri hægt að segja með óyggjandi hætti út frá myndböndum að Alexander hefði veist með hnífi að öllum þremur fórnarlömbunum líkt og ákæran segi til um. Ekki væri til staðar hnífur sem ætlaður hafi verið til verksins. Þá hafi að sögn Ómars verið fleiri hnífar sem sáust fyrr um kvöldið og inni á Bankastræti Club.

Auk þess segir Ómar að einum þeirra sem ákærður er fyrir hlutdeild hafi verið réttur hnífur eftir árásina skammt frá Bankastræti Cub. Sá hnífur hafi að sögn þess einstaklings verið blóðugur og ólíkur þeim sem Alexander Máni hélt á við atlöguna. Sá einstaklingur henti hnífnum frá sér eftir að hafa handfjatlað hann í nokkrar sekúndur.

Fram kemur í gögnum málsins að lögregla hafi leitað að hnífnum í um klukkustund en látið svo gott heita. Þetta telur verjandinn vera til marks um ófullnægjandi rannsókn lögreglu.

Ekki leitað til réttarmeinafræðings

Þá segir verjandinn að komið hafi fram við rannsókn málsins að 28 blóðug göt hafi verið á fötum fórnarlambanna þriggja. Þessi göt hafi verið tilkomin vegna eggvopns eða eggvopna. „En hann var ákærður fyrir tíu stungur. Hvaðan koma þá hinar 18 stungurnar?“ spyr Ómar í málsvörn sinni.

Þá hafi ekki verið leitað til réttarmeinafræðings til að rannsaka atlöguna nánar.

Mundi ekki eftir árásinni

Eins og fram hefur komið játaði Alexander Máni að hafa stungið öll þrjú fórnarlömbin í fyrstu. Hann dró svo til baka játningu í tveimur tilfellum, síðast nú í morgun, skömmu áður en málflutningur hófst í málinu. 

Vísaði hann til þess að hann hefði ekki munað eftir árásinni sökum vímuefnanotkunar. Á þeim forsendum hafi hann játað að hafa stungið þrjú fórnarlambanna í fyrstu og svo dregið tvær þeirra til baka.

mbl.is