Kristín nú sýslumaður í tveimur umdæmum

Kristín Þórðardóttir hefur verið sett sem sýslumaður í Vestmannaeyjum tímabundið.
Kristín Þórðardóttir hefur verið sett sem sýslumaður í Vestmannaeyjum tímabundið. Samsett mynd

Kristín Þórðardóttir, sýslumaður á Suðurlandi, hefur verið sett tímabundið í embætti sýslumanns í Vestmannaeyjum frá 1. október til og með 30. september á næsta ári. 

Tilefni setningarinnar er beiðni Arndísar Soffíu Sigurðardóttur, sem var skipuð í embætti sýslumannsins í Vestmannaeyjum frá 1. apríl 2020, um lausn frá embætti. Kristín Þórðardóttir mun gegna báðum embættunum á framangreindu tímabili.

Í takt við áherslu um fækkun embætta

Í tilkynningu á vef dómsmálaráðuneytisins kemur fram að ákvörðunin að setja sýslumann yfir tvö embætti samræmist áherslum ráðherra í málefnum sýslumanna, þ.á.m. að unnið verði að því að fella niður áhrif umdæmismarka gagnvart almenningi.

Þá er vísað til þess að á sýslumannadeginum 22. september, sem er sameiginlegur fræðsludagur sýslumannsembættanna, hafi ráðherra tilkynnt starfsfólki embættanna að hún hygðist fylgja eftir fyrri stefnumótunarvinnu og að setningar sýslumanna í laus embætti væri leið sem hún hefði áhuga á að nýta sér til að ná þeim markmiðum sem stefna málaflokksins byggir á. 

mbl.is
Loka