Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í hálku á Möðrudalsöræfum um hádegi á laugardag. Endaði bifreiðin utan vegar. Voru tvö flutt á heilsugæslustöðina á Vopnafirði með smávægileg meiðsl.
Þetta kemur fram í færslu lögreglunnar á Austurlandi sem hvetur ökumenn til þess að vera á varðbergi nú þegar akstursskilyrði fara smátt og smátt versnandi með lækkandi sól og hættu á hálkublettum hér og þar.
Þau tvö sem í slysinu lentu á laugardag fóru heim að skoðun lokinni og voru ekki talin alvarlega slösuð.
Í færslu lögreglunnar segir að fjöldi skráðra umferðarslysa í fjórðungnum fyrstu níu mánuði ársins sé svipaður og á sama tímabili í fyrra.
Þá voru skráð þrjátíu og fimm slys en þrjátíu og fjögur nú. Umferð hefur aukist lítillega á Austurlandi frá í fyrra samkvæmt tölum frá Vegagerðinni.