Ömurlegt að fá þessar fréttir

Íslendingarnir sem tóku þátt í Ironman-Barcelona í gær.
Íslendingarnir sem tóku þátt í Ironman-Barcelona í gær. Mynd/Aðsend

Þríþrautarkappinn Geir Ómarsson mátti bíta í það súra epli að vera dæmdur úr leik í hálfum járnkarli eftir að hafa komið annar í mark á eftir heimsmeistaranum í flokki 45-49 ára í Ironman-keppni sem haldin var í Barcelona á Spáni í gær.

„Jú, jú þetta var ansi svekkjandi,“ segir Geir við mbl.is í dag en rétt eftir að hann kom í markið fékk hann að heyra það að hann hafi verið dæmdur úr leik.

Stytti hlaupið um 50 metra

„Í öllum svona keppnum þá áttu að vera búinn að kynna þér keppnisbrautina en svo er líka brautarvarsla. Hún er misgóð eftir keppnum. Þegar ég kom að fyrsta snúningspunkti á litlu hringtorgi þá var einhver útgangur út úr hringtorginu sem átti að fara. Það var engin brautarvarsla sem átti að segja mér hvert ég átti að fara. Ég tók þátt í þessari keppni árið 2017 og ég gerði ráð fyrir því að það væri sama leið og þá.

En það voru nokkrir keppendur sem voru framarlega, þar á meðal ég, sem tóku vitlausa beygju á þessum stað sem varð til þess að ég stytti hlaupið um einhverja 50 metra. Það var engin miskunn. Ég fékk að heyra það þegar ég kom í markið að ég hefði verið dæmdur úr leik. Það var ömurlegt að fá þessar fréttir enda búinn að undirbúa mig lengi fyrir þessa keppni,“ segir Geir, sem bar sigur úr býtum í heilum járnkarli í sömu keppni árið 2017 í flokki 40-44 ára á besta tíma sem Íslendingur hefur náð, 8 klukkustundir og 39 mínútur.

Erfiðar aðstæður

Hann segir að keppandi sem hann hitti í markinu hafi reynt að láta sig vita en hann hafi ekki heyrt í honum. Geir segist hafa verið fljótur að taka gleði sína enda stóðu liðsfélagar hans í Ægi, sem voru yfir 50 talsins, sig frábærlega í keppninni að hans sögn. Það fór svo að lokum að Ægir vann liðskeppnina á mótinu. 

Fyrsta keppnisgreinin í hálfum járnkarli á mótinu í Barcelona var 1,9 km sund. Þar á eftir tók við 85 kílómetra hjólasprettur og loks hálft maraþonhlaup, 21,1 kílómetri.

„Það var algjör veisla að taka þátt í þessari keppni og gaman þegar svona stór hópur frá Íslandi er með og kynjahlutföllin jöfn. Það var vel tekið eftir því hversu Íslendingar voru fjölmennir og stemningin í bænum var virkilega góð. Það voru erfiðar aðstæður. Það var svolítið þungt í sjóinn enda töluverð alda og það var mjög heitt í hlaupinu þar sem hitinn fór alveg upp í 30 gráður í glampandi sól, allan tímann,“ segir Geir, sem er þrautreyndur þríþrautarkappi og hefur unnið til fjölmargra verðlauna.

mbl.is
Loka