„Umræða sem enginn hefur viljað taka“

Norðmenn banna eldi á íslenskum laxi út fyrir ströndum Noregs. Kanada bannar eldi á bæði íslenskum og norskum laxi í sjókvíum úti fyrir austurströnd landsins. Guðni Guðbergsson sviðstjóri Hafrannsóknastofnunar spyr hvort við hefðum átt að skilgreina norskan eldislax sem framandi tegund á sínum tíma þegar hefja átti sjókvíaeldi við Ísland. 

„Þetta er umræða sem enginn hefur viljað taka,“ segir Guðni.

Hann er gestur Dagmála í dag og ræðir þar umhverfisslysið þegar þúsundir kynþroska norskra laxa sluppu úr sjókvíum í nágrenni Patreksfjarðar. Þessir laxar leita nú í laxveiðiár landsins til að hrygna með íslenska villta laxinum.

Einstakur laxastofn

Guðni segir að ef við hefðum skilgreint norska laxinn sem framandi tegund hefði margt farið öðruvísi. Að sama skapi bendir hann á að sett hafi verið skilyrði fyrir notkun norska laxins en þau hafi einhvern vegin gufað upp.

Guðni segir að íslenski laxastofninn sé einstakur og ólíkur öllum öðrum og til marks um líffræðilegan fjölbreytileika. Hann hefur miklar áhyggjur af stöðunni og segir að það sem átti ekki og mátti ekki gerast hafi nú gerst.

Í Dagmálum dagsins er rætt um umhverfisslysið sem nú er að opinberast á Íslandi. Guðni útskýrir af hverju þetta er hættulegt fyrir villta íslenska laxinn. Æsingalaus umræða um stóra hagsmuni sem tekist er á um af hörku.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.

mbl.is