Blásið er til allsherjar kvennaverkfalls á kvennafrídaginn, 24. október. Á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks standa að verkfallinu.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem BSRB sendi frá sér fyrir hönd kvennafrísins.
„Konur og kvár sem geta eiga að leggja niður störf; ekki mæta til vinnu, ekki annast börnin svo sem gefa þeim mat eða smyrja nesti né sinna veikum fjölskyldumeðlimum heldur fá karlkyns fjölskyldumeðlim til að standa vaktina.
Sleppa á öllu sem gæti talist til starfa hvort sem er átt við launaða vinnu, eða ólaunaða líkt og umönnun barna, sinna heimilinu eða þriðju vaktina svokölluðu. Svo eru þau hvött til mæta á útifundi á Arnarhóli eða í sinni heimabyggð og sýna samstöðu í verki.“
Í tilkynningunni segir að þótt mikið hafi áunnist frá árinu 1975 hafi ekki verið orðið við þeirri meginkröfu að störf kvenna séu metin að verðleikum. Atvinnutekjur kvenna séu enn 21% lægri en karla og hefðbundin kvennastörf séu talsvert verr launuð en karlastörf.
Þá segir að atvinnuþátttaka kynjanna sé svipuð en að ábyrgð þeirra á heimilishaldi og umönnun sé enn afar ójöfn. Þá verði ekki beðið lengur eftir róttækum aðgerðum gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi sem yfir 40% kvenna verði fyrir á lífsleiðinni, en trans fólk, þar með talin kvár, konur með fötlun og konur af erlendum uppruna verði fyrir enn meira ofbeldi en aðrir hópar.
Yfirskrift verkfallsins er „Kallarðu þetta jafnrétti?” og vísar hún til þess að konur og kynsegin fólk fái ítrekað þau skilaboð að vegna þess að Ísland sé fremst meðal jafningja þegar kemur að jafnréttismálum eigi þau ekki heimtingu á frekari aðgerðum.
„En við bíðum ekki lengur - og krefjumst aðgerða strax! Megin þemu verkfallsins eru kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og kerfisbundið vanmat á störfum kvenna,“ sem segir í tilkynningunni.
Baráttukonur og -kvár í verkfalli munu safnast saman á Arnarhóli þar sem útifundur fer fram kl. 14. Fleiri fundir eru þá í smíðum víðsvegar um Vestur-, Norður- og Austurland.
Aðstandendur kvennaverkfalls: