Dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, boðar flutning lagafrumvarps sem hefur það að markmiði að breyta ákvæðum laga um útlendinga sem varða alþjóðlega vernd. Með frumvarpinu er ætlunin að breyta íslenskri löggjöf og framkvæmd í málaflokknum til samræmis við það sem tíðkast í öðrum Evrópulöndum, einkum á Norðurlöndum.
Frumvarpið var birt í samráðsgátt stjórnvalda í gær. Segir þar að verði ekki gerðar frekari breytingar á lögum um útlendinga varðandi alþjóðlega vernd sé fyrirséð að umsóknum haldi áfram að fjölga, vandamál sem því tengjast muni ágerast og kostnaður vegna málaflokksins aukast.
Boðað er að lagaákvæðum varðandi mannúðarleyfi verði breytt og fellt verði á brott ákvæði sem heimilar veitingu slíks leyfis, hafi umsækjandi um alþjóðlega vernd ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan lögbundinna tímamarka. Segir í skýringum að eftir því sem næst verði komist heimili Ísland, eitt ríkja á Norðurlöndum, veitingu dvalarleyfis á þeim grundvelli.
Breyting er boðuð á þeim ákvæðum laganna þar sem kveðið er á um endurgjaldslausa talsmannaþjónustu á báðum stjórnsýslustigum. Í skýringum segir að í þeim ríkjum Evrópu, þar sem umsækjendur um vernd eigi rétt á að þeim sé skipaður talsmaður, nái sá réttur almennt aðeins til málsmeðferðar á kærustigi en ekki til meðferðar þess stjórnvalds sem tekur við og afgreiðir umsóknir um vernd á lægra stjórnsýslustigi. Þannig nái rétturinn til talsmanns samkvæmt útlendingalögum lengra hér á landi en í nágrannalöndunum sem feli í sér talsverðan útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Verður því í frumvarpinu lagt til að Útlendingastofnun verði í ákveðnum tilvikum heimilt að afgreiða mál án þess að umsækjanda sé skipaður talsmaður. Markmið breytinga á skipan kærunefndar útlendingamála er að hámarka skilvirkni.