Bróðir Magnúsar Kristins Magnússonar er á leiðinni til Dóminíska lýðveldisins. Þá er hluti farangurs Magnúsar á leið til landsins, eins og RÚV hefur greint frá.
Þetta staðfestir vinur Magnúsar í samtali við mbl.is, en ekkert hefur spurst til Magnúsar frá 10. september, þegar hann átti bókað flug frá Dóminíska lýðveldinu til Frankfurt í Þýskalandi á leið sinni heim til Íslands.
Aðstandendur Magnúsar hafa fengið lögfræðing í Dóminíska lýðveldinu sér til aðstoðar. Að sögn vinar fjölskyldunnar segir lögfræðingurinn, sem reynst hefur aðstandendum vel til þessa, að mikill þungi sé í rannsókninni úti.
Auk þessa lagði bróðir Magnúsar af stað til Dóminíska lýðveldisins í dag þar sem hann hyggst leggja leitinni að bróður sínum lið.
Fyrr í dag sáu aðstandendur að í umfjöllun dóminíska fjölmiðilsins Listín Díario hefur verið greint frá því að lögregla hafi komist yfir myndefni frá flugvellinum í Las Americas, þar sem Magnús sést yfirgefa flugvöllinn og fer inn í bíl sem ekið er á brott. Fjölskylda Magnúsar hefur þó ekki fengið þessar fregnir staðfestar af lögreglu þar í landi.
Þrátt fyrir að aðstandendur Magnúsar hafi ekki fengið það staðfest að Magnús hafi sést yfirgefa flugvöllinn á öryggismyndavélum á svæðinu, hafa tölvugögn lögreglunnar í Dóminíska lýðveldinu um brottfarir staðfest að Magnús hafi ekki yfirgefið landið.