Hjúkrunarfræðingur og Guðni forseti til bjargar

Ljósmynd/Katrín Oddsdóttir

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var snar í snúningum þegar eldri maður hneig niður í Ikea í hádeginu í dag.

Katrín Oddsdóttir lögmaður var viðstödd fangaði augnablikið á mynd sem hún segir lýsandi fyrir þessa litlu þjóð. Hvar annars staðar í heiminum myndi maður sjá forseta í Ikea án fylgdarliðs reiðubúinn að stíga inn í slíkar aðstæður, spyr Katrín er mbl.is sló á þráðinn.

„Mér fannst hann bara bregðast fallega við.“

Hjúkrunarfræðingurinn stóð sig eins og hetja

Að sögn Katrínar heyrðist hávær skellur þegar eldri maður féll aftur fyrir sig í Ikea og skapaðist mikið öngþveiti í kjölfarið.

„Guðni var mættur strax, rólegur og stýrði þessu svolítið, og var til staðar fyrir þennan mann,“ segir Katrín sem tekur þó fram að á vettvangi hafi einnig verið hjúkrunarfræðingur sem hafi staðið sig eins og hetja og séð vel um manninn.

Stuttu síðar hafi einnig sjúkrabílar og lögreglubílar komið á vettvang og maðurinn því í góðum höndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert