Draugahúsið sló í gegn og verður enn stærra í ár

Mæðurnar vinna hörðum höndum að því að gera draugahúsið „stærra …
Mæðurnar vinna hörðum höndum að því að gera draugahúsið „stærra og betra“ heldur en það var í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Þrjár mæður vinna nú hörðum höndum að því að setja upp heljarinnar draugahús við Gullengi í Grafarvogi. Er þetta í annað sinn sem mæðurnar setja upp draugahús. Það sló í gegn á hrekkjavökunni í fyrra, en í ár á það að vera stærra, betra og sennilega skelfilegra.

Draugahúsið er hugarfóstur Silju Pálsdóttur, þriggja barna móður sem býr í Grafarvoginum. Silja fékk hugmyndina þegar hún var niðri í geymslu heima hjá sér í október á síðasta ári, en hún segir geymsluna almennt nokkuð hrollvekjandi.

Silja er þó ekki ein að verki því hún sannfærði tvær aðrar mæður úr blokkinni til þess að hjálpa sér við gjörninginn, þær Lakmali og Unni.

Vinkonurnar hafa smíðað framlenginu á draugahúsið svo að draugahúsið verði …
Vinkonurnar hafa smíðað framlenginu á draugahúsið svo að draugahúsið verði enn stærra. Í fyrra myndaðist röð langt út úr dyrum. Ljósmynd/Aðsend

Draugur úr barnæsku

Kveikjan að hugmyndinni var þó ekki aðeins hrollvekjan í geymslunni, heldur æskuminningar Silju úr grunnskólanum á Álftanesi, þar sem ávalt var sett upp draugahús á öskudaginn þegar hún var nemandi þar. 

„Ég ólst upp við að það væri alltaf draugahús á öskudaginn og ég hugsaði með mér að það yrði gaman fyrir börnin mín að upplifa þau líka,“ segir Silja í samtali við mbl.is.

Draugahúsið sló í gegn í fyrra, ekki einungis hjá börnum heldur einnig fullorðna fólkinu.

„Fullorðna fólkið hafði alveg jafn gaman af þessu og krakkarnir,“ segir Silja en á síðasta ári myndaðist röð langt út fyrir dyrnar. 

Draugahúsið sló í gegn í fyrra en í ár á …
Draugahúsið sló í gegn í fyrra en í ár á að hræða börnin enn betur. Ljósmynd/Aðsend

„Stærra og betra“ en í fyrra

Í ár ætla vinkonurnar að taka draugahúsið skrefinu lengra og vinna nú að því að smíða framlengingu fyrir utan kjallaradyrnar.

„Þetta sló í gegn, þannig við erum bara að taka þetta á næsta skref. Við erum búin að panta fullt af dóti og leggja mikla vinnu í þetta. Við byrjuðum að smíða framlenging út í garð fyrir viku síðan. Þannig þetta verður stærra og betra,“ segir hún og bæti við að undirbúningurinn gangi afar vel.

Þá verða einnig fleiri við störf í draugahúsinu í ár – ýmist við að bjóða börnin velkomin og auðvitað við að bregða þeim.  

Draugahús í Grafarvogi
Draugahús í Grafarvogi Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert