Drónamyndir sýna hitann í Illahrauni

Myndir Gylfa sýna hita á nokkrum svæðum sem eru í …
Myndir Gylfa sýna hita á nokkrum svæðum sem eru í línu í áttina að Bláa lóninu, sem sést glitta í efst í vinstra horninu. Myndin er tekin í dag, en myndbandið hér að neðan var tekið í gær. Ljósmynd/Gylfi Gylfason

Myndefni tekið úr dróna sýnir hita í Illahrauni í dag og í gær. Gylfi Gylfason tók myndirnar með hitamyndavél en hann segist sjá hitabreytingar á milli daga. Hann segir að þó þurfi að rýna betur í myndefnið til þess að meta það.

„Ég er alveg sannfærður um að það er aukning í hita. Í fjórum ferðum hafði ég ekki séð þessa línu út að verksmiðjunni og ég hafði ekki séð þennan blett á milli gíganna og lónsins. Það var nýtt,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is.

Þess virði að skoða betur

Gylfi Gylfason heldur úti Youtube-síðunum Íslandsrásinni og Just Icelandic, þar sem hann sýnir meðal annars frá upptökum sínum með hitamyndavél á svæðinu í kringum Illahraunsgíga, þar sem talið er líklegt að eldgos muni eiga upptök sín, fari svo að það brjótist upp.

Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjalla- og bergfræði segir myndband Gylfa vera athyglisvert. 

„Ef það er aukið hitaútflæði á staðnum og menn eru að sjá breytingar á milli daga, þá er það alveg þess virði að skoða það betur,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is.

Hann segir að það sé í mörg horn að líta og alltaf sé möguleiki á að eitthvað yfirsjáist í hefðbundnu eftirliti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka