Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, segir í samtali við mbl.is að það hafi ekki komið til tals að rýma Bláa lónið vegna mögulegs goss í nágrenni við Svartsengi. Hann segir almannavarnir þó ekki hika við að grípa til rýmingaraðgerða ef mat vísindamanna á hættunni breytist.
„Við erum á þessu óvissustigi og erum að vinna í því að allir taki sjálfir ákvarðanir um sína starfsemi,“ segir Víðir og bendir á að HS Orka hefur þegar dregið úr fjölda starfsmanna í virkjuninni í Svartsengi og að Bláa lónið og önnur starfsemi á svæðinu sé vel upplýst um stöðuna.
„Ef að mat vísindamanna verður að hættan sé að aukast, eitthvað frekar en nú er, höfum við þau úrræði að grípa til rýmingar og lokana á svæðinu. En á meðan við erum á þessu stigi er það ekki mat okkar að það þurfi, enda munum við ekki hika við að gera það ef það þarf.“
Eins og fram kom í máli Kristínar Jónsdóttur, fagstjóra náttúruvöktunar á Veðurstofu Íslands, er talið að kvikusyllan sem myndast hefur við Þorbjörn sé um einn metri að þykkt og um sex milljón rúmmetrar að stærð.
Víðir telur ekkert benda til þess að mögulegt gos verði stærra en fyrri gos. Hann segir það þó skipta minna máli en staðsetning þess, sem er bundin mikilli óvissu. Líklegustu staðirnir eru þó vestan og norðan við Þorbjörn og að Sýlingafelli, eins og fram kom á upplýsingarfundi almannavarna fyrr í dag.
„Svo er auðvitað þessi möguleiki að þessi atburður hætti. Það er enn landris undir Fagradalsfjalli og þar er önnur sylla. Það gæti byrjað að gjósa þar áður en það fer að gjósa þarna [í nágrenni við Þorbjörn],“ segir Víðir.