„Það verður unnið allan sólarhringinn“

Varnargarðarnir eiga að vernda innviði í Svartsengi og íbúa.
Varnargarðarnir eiga að vernda innviði í Svartsengi og íbúa. mbl.is/Arnþór

Unnið verður myrkranna á milli við gerð varnargarða í Svartsengi sem eiga að verja virkjun HS Orku og byggðina í Grindavík. Til greina kemur að hefja framkvæmd við garðana á þremur til fjórum stöðum í einu, og það strax um helgina.

Búið er að leita til allra verktaka á suðvesturhorninu og hafa tíu þegar staðfest þátttöku sína. Voru bæði tæki og efni flutt á svæðið í dag.

Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, í samtali við mbl.is.

Frekari undirbúningur hafinn

Dóms­málaráðherra bár­ust til­lög­ur um varn­argarða í kring­um Svartsengi frá al­manna­vörn­um í gær­kvöldi.

Ákvörðun var tekin í dómsmálaráðuneytinu upp úr hádegi í dag að hefja frekari undirbúning við gerð varnargarðanna, þrátt fyrir að ekki væri búið að samþykkja frumvarp sem heimilar dómsmálaráðherra að reisa varnargarða.

Miðað við áætlanir yrðu garðarnir um 4 km langir og gætu framkvæmdir kostað á bil­inu tvo og hálf­an til þrjá millj­arða.

„Við getum byrjað mjög hratt og vel um leið og frumvarpið verður samþykkt á Alþingi – ef að frumvarpið verður samþykkt,“ segir Guðrún.

Getum ekki beðið

„Það kom tillaga til dómsmálaráðuneytisins í gær frá ríkislögreglustjóra og almannavörnum um beiðni til að hefja vinnu við gerð varnarmannvirkja til að verja orkuverið í Svartsengi og byggðina í Grindavík. Það var rætt í ríkisstjórn í morgun og ákveðið að hefja þessa vinnu.“

Síðustu sólarhringa hefur vinna staðið yfir við gerð frumvarps sem heimilar dómsmálaráðherra að ráðast í framkvæmdirnar, sem eru bæði umfangsmiklar og óafturkræfar, að sögn Guðrúnar.

„[O]g ríkisstjórn samþykkti það að við skyldum fara í þessa vinnu. Frumvarp þess efnis var sent í kvöld til allra þingflokka Alþingis og allir þingflokkar munu halda þingflokksfundi í fyrramálið og taka málið fyrir en ég tók þá ákvörðun í dag að við gætum ekki beðið eftir því þannig að við hófum nauðsynlegan undirbúning til að nýta klukkutímana vel,“ segir Guðrún.

„Við erum að flytja stórvirkar vinnuvélar í nágrenni við orkuverið í Svartsengi, sem og efni, þannig að við munum byrja þessa vinnu líklega um helgina. Við erum að gera ráð fyrir því að hefja byggingu varnargarða á jafnvel þrem fjórum stöðum í einu. Og það verður unnið allan sólarhringinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert