Ef möguleg gossprunga opnast út í sjó við Grindavík er næsta víst að það verður öskugos. Ólíklegt er að slíkt gos yrði mjög kraftmikið, en það gæti hins vegar myndað það sem heitir gusthlaup og getur verið nokkuð hættulegt innan tveggja kílómetra radíus. Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur segir ekki líklegt að ef til öskugoss kæmi á sjó út af Grindavík að það yrði aflmikið, heldur myndi öskumökkurinn þynnast mjög hratt. Þá nefnir hann að í slíkum tilfellum væri askan líklegast komin undir 5 cm í 35 km fjarlægð. Það fari hins vegar allt eftir hvað gos standi lengi og hversu stórt það verður.
Þorvaldur ræddi um möguleika og afleiðingar goss á hafi úti við mbl.is. Hann ítrekar hins að afl slíks öskugoss yrði líklegast lítið. „Þau verða nú ekki stór sprengigos sem yrðu hér. Þetta er allt frekar lítið. Þau verða ekki jafn stór og Öræfajökull eða Heklugos.“
Rétt er að taka fram að Magnús Tumi guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að litlar líkur væru á gosi úti á sjó.
Þorvaldur segir að öskugosum fylgi að vatnið sundri kvikunni þannig að kornin verða fínni og geti þar með dreifst víðar og hangið í loftinu.
Segir hann að í gosi á sjó sé gosmökkurinn mjög blautur og með mikilli vatnsgufu. Þá geti það komið til þess að gosmökkurinn hiti ekki andrúmsloftið nægjanlega mikið til að lyfta sér. „Hann getur fallið niður og þá myndast það sem við köllum gusthlaup, sem eru gjóskuský sem fara með jörðinni og þau geta orðið svolítið skaðvæn, sérstaklega þegar þetta er nánast við land og ef fólk er þar.“
Spurður út í hættu af slíkum hlaupum segir Þorvaldur að þau geti reynst hættuleg fyrir fólk í allt að tveggja km radíus frá upphafsstað goss. „Þau eru yfirleitt innan tveggja kílómetra. En auðvitað getum við fengið einstaka sprengingar sem eru öflugari, en þetta er ákveðið meðaltal.“ Gjósi því langt út á hafi séu slíkt hlaup ólíkleg til að skapa mikla hættu, en séu þau alveg við ströndina þurfi að huga vel að slíktu áður en fólk fari nálægt.