Hafa áhyggjur af virkni suðvestur af Grindavík

Skjálftavirknin virðist síðustu klukkustundir hafa færst suðvestur fyrir Grindavík.
Skjálftavirknin virðist síðustu klukkustundir hafa færst suðvestur fyrir Grindavík. Kort/Veðurstofa Íslands

Enn eru engin merki um að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs. Ekki er heldur staðfest að eldgos muni hefjast, þó það þyki líklegt.

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofu Íslands í jarðskorpuhreyfingum.

Björgunarsveitarfólk að störfum í Grindavík í nótt.
Björgunarsveitarfólk að störfum í Grindavík í nótt. mbl.is/Eyþór

Miklar siggengishreyfingar 

Nú virðist skjálftavirknin vera komin suðvestur fyrir Grindavík.

„Já, það er það sem við höfum áhyggjur af. Það eru miklar siggengishreyfingar undir Grindavík og við Grindavík. Við getum ekki fullyrt um að það sé komin kvika þangað en það er ekki heldur hægt að útiloka þetta,“ segir Benedikt.

„Eins og staðan er núna höfum við ekki þær skorður til að geta sagt til um það. Það eru alla vega nægilega miklar líkur á því að það var forsvaranlegt að mæla með rýmingu.“

Talsvert líklegt

Eins og áður segir eru engin merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp til yfirborðs og er ekki staðfest að eldgos muni hefjast.

„En það verður að teljast talsvert líklegt á meðan þetta er í gangi. En hvenær? Það er ekki nokkur leið að segja til um það,“ segir Benedikt og bætir við: „Þróunin er enn þá þannig að það geti endað með gosi á næstu klukkutímum, dögum eða vikum.“

Er þetta eitthvað sem kom ykkur á óvart?

„Þetta er þekkt gígaröð og að því leytinu kom það ekki á óvart. Aftur á móti var aðdragandinn að þessu ekki farinn að benda á þennan stað fyrr en mjög seint í ferlinu. Fyrstu alvöru vísbendingarnar komu fram í morgun. Það var náttúrulega skjálftavirkni þarna áður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert