Almannavarnir gefa sér tvo til þrjá tíma til að rýma Grindavíkurbæ. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, ítrekar að um öryggisráðstöfun sé að ræða og ekki neyðarrýmingu.
Ekki er hægt að útiloka að kvikugangurinn sem er að myndast gæti náð til Grindavíkur.
Ekki er búið að keyra hraunflæðilíkön sem sýna hvað gæti gerst opnist sprunga skammt frá bænum en vísindamenn vinna hörðum höndum að því að samtúlka gögnin og upplýsa almannavarnir.
Ákvörðun um að rýma var tekin á ellefta tímanum eftir að ný gögn frá Veðurstofunni bárust.
„Hún byggir á mati vísindamanna um að kvikugangurinn, sem við erum búin að sjá að er að myndast í kvöld – að hann sé stærri og lengri heldur en fyrstu tölur gerðu ráð fyrir og hann gæti teygt sig það nálægt Grindavík að íbúar væru í hættu ef hann opnaði syðst þar sem það væri. [...] Næst Grindavík, ekki endilega undir Grindavík, en það er erfitt að segja nákvæmlega til um það,“ segir Víðir.
Þetta hlýtur að vera svartari sviðsmynd en sú svarta sviðsmynd sem hefur verið í umræðunni, þar sem talað er um ekkert vatn eða rafmagn?
„Nei, nei. Hluti af þeim sviðsmyndum sem við höfum unnið með er það að það þurfi að rýma Grindavík og þannig er þetta bara. Þess vegna vorum við með þessa rýmingaráætlun og tilbúin í þetta verkefni.“
En við höfum ekki séð áður í þessum sviðsmyndum að kvikugangurinn nái að Grindavík?
„Nei, en við höfum alveg séð það að kvika gæti komið upp það nálægt Grindavík að við gætum þurft að rýma. Þess vegna vorum við jafnvel tilbúin með neyðarrýmingar ef að það væri, en nú eins og við áttum von á höfum við tíma til þess að rýma áður en slíkt gerist. Þetta er innan þess ramma sem við höfðum séð fyrir.“
Þú talar um að þetta sé ekki neyðarrýming, hvað felst í því?
„Bara að við höfum nægan tíma. Neyðarrýming er eitthvað sem á að taka innan við klukkustund. Þetta er öryggisráðstöfun – við vorum búin að lofa íbúum Grindavíkur því að við myndum taka allar ákvarðanir með öryggi þeirra í huga.“
Dvalarheimili voru rýmd fyrr í kvöld. Að sögn Víðis gekk það mjög vel.
„Þau fóru af stað fyrr í kvöld og gekk mjög vel. Þau unnu þetta samkvæmt sinni rýmingaráætlun sem var mjög góð.“
En hvað með virkjunina í Svartsengi, hafið þið áhyggjur af henni?
„Já, við höfum það auðvitað og það verður bara að koma í ljós. Núna erum við bara að hugsa um öryggi íbúanna og þeirra sem eru þarna. Það er búið að rýma allt sem er í Svartsengi og þar eru engir í hættu.“
Hvernig er ástandið á vegunum, eru einhverjar fleiri sprungur að myndast?
„Ekkert sem við vitum. Vegagerðin er með mikinn viðbúnað til að halda öllum vegum eins öruggum og hægt er.“