Krónan bauð upp á morgunmat í fjöldahjálparmiðstöðinni í Kórnum í morgun og Elko undirbýr sendingu með spilum og hleðslusnúrum til að stytta stundirnar á erfiðum tímum.
Íþróttamót sem halda átti í Kórnum í Kópavogi um helgina, var aflýst í gær, í kjölfar þess að fjöldahjálparstöð var sett upp í húsinu fyrir þá Grindvíkinga sem þurftu að flýja heimilin sín. Um var að ræða Krónumótið í fótbolta annars vegar og Íslandsmót hjá 5. flokki kvenna hins vegar.
„Það vill þannig til að við áttum að halda Krónumótið hér í Kópavogi um helgina. Í ljósi stöðunnar slaufuðum við því og vorum í staðinn vorum við mætt hingað í Kórinn klukkan 7 til að bjóða upp á morgunmat fyrir fjöldann allan sem fékk að gista í fjöldahjálparstöðinni í nótt,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festi, móðurfélags Krónunnar, Elko og N1.
Í kjölfarið kom í ljós að margir þeirra sem dvelja í fjöldahjálparstöðinni voru ekki með hleðslusnúrur fyrir tækin sín og ýmislegt annað. „Þá var Elko virkjað,“ segir hún.
Þegar blaðamaður ræddi við Ástu voru starfsmenn Elko því að undirbúa sendingu í fjöldahjálparmiðstöðina.
„Þau eru á leiðinni með rosa pakka af slíkum græjum, ásamt spilum og dóti. Það er mikið af ungu fólki og krökkum á staðnum, þannig að vonandi styttir þetta þeim stundirnar í þeirri óvissu sem ríkir,“ segir hún.
Aðspurð segir Ásta félögin áfram til taks ef á þarf að halda.
„Það er heppilegt að við erum nálægt og getum veitt þessa aðstoð. Rauði Krossinn er búinn að leiðbeina okkur vel, þau vita nákvæmlega hvað þarf, hvenær og hversu mikið, sem auðveldar öllum að veita þá aðstoð sem þörf er á.“ segir hún og bætir við:
„Maður finnur kraftinn í samfélaginu, það eru allir tilbúnir að aðstoða.“