Rafmagn er komið aftur á í Grindavík. Þetta staðfestir Páll Erland, forstjóri HS Veitna.
Rafmagn fór af í bænum og er talið að bilun hafi komið upp í innanbæjarstreng milli tveggja aðveitustöðva. Að sögn Páls voru starfsmenn fljótir að koma rafmagni aftur á í bænum öllum.
Aðspurður segir hann engar bilanir tengdar heitu vatni hafa komið upp, enn sem komið er og heita vatnið enn í gangi að óbreyttu í bænum.
Tvær smærri staðbundnar bilanir hafi hins vegar komi upp á rafmagnslínum.
„Það er staðbundið við einhver svæði þar sem skjálftarnir virðast vera að slíta jörðina í sundur og strengina með,“ segir Páll „það er verið að reyna að finna út úr því.“

