„Maður þykist vera ósköp rólegur“

Róbert Henry Vogt sl. föstudagskvöld þegar verið var að rýma …
Róbert Henry Vogt sl. föstudagskvöld þegar verið var að rýma bæinn. Eyþór Árnason

„Það var búið að vera alveg gríðarleg skjálftavirkni allan daginn, ég var að vinna og konan var heima og hver skjálftinn af öðrum dundi yfir um miðjan dag,“ segir Róbert Henrý Vogt, íbúi í Grindavík, í samtali við mbl.is en þau hjónin halda nú til í hjólhýsi sínu á Flúðum eftir að hafa yfirgefið heimili sitt í snarhasti á föstudaginn.

„Ég sagði henni að fara bara þangað og vera þar til þetta yrði gengið yfir og hún gerði það,“ segir Róbert frá.

„Við vorum búin að pakka að mestu leyti og allt tilbúið og ég fer upp í Grindavík og næ í það,“ heldur hann áfram en Róbert starfar í Grindavík. Kona hans var þá farin á Flúðir en fór eftir farangrinum og leist ekki á blikuna.

Ekkert stressaður þannig lagað

„Skjálftunum linnti ekkert, það lék allt á reiðiskjálfi, þetta var um ellefuleytið á föstudagskvöldið og ég er bara á leiðinni út úr bænum þegar ég heyri að það eigi að rýma,“ rifjar hann upp, þremur tímum áður hafi almannavarnadeild ríkislögreglustjóra gefið það út að þegar tilkynning bærist um rýmingu yrði tíminn nægur fyrir íbúana.

Róbert Henrý Vogt og Margrét Kristín Sigurðardóttir halda til í …
Róbert Henrý Vogt og Margrét Kristín Sigurðardóttir halda til í hjólhýsi sínu á Flúðum eftir að þau yfirgáfu Grindavík þegar bærinn var rýmdur. Ljósmynd/Aðsend

„Maður var ekkert stressaður þannig lagað, maður henti bara einhverju ofan í tösku, einhverjum nauðsynjum, lyfjum og svona, en þetta er auðvitað óskaplegt óvissuástand,“ segir Róbert og ber almannavarnayfirvöldum vel söguna.

„Ég held að það sé nú ekkert hægt að sakast við þessa sérfræðinga, það eru alls konar gróusögur á lofti en þetta er bara náttúran og við verðum bara að reyna að tækla þetta eins vel og við getum,“ segir hann.

Óþægilegt að vita ekki um ástandið

Sonur Róberts og konu hans er á sjónum og á leið í land í Grindavík í dag. „Það er verið að hleypa grindvískum sjómönnum í land núna,“ segir hann frá og bætir því við aðspurður að þau hjónin geti haldið til í hjólhýsi sínu á Flúðum einhvern tíma.

„Við erum í þokkalega góðu hjólhýsi og getum haldið kyndingu á meðan rafmagnið heldur en þetta er ekki besta úrræðið fyrir okkur,“ játar Grindvíkingurinn sem hefur verið frá vinnu síðustu daga.

„Ég er að fara núna fyrst og athuga hvort maður sé orðinn vinnuhæfur. Maður þykist vera ósköp rólegur en maður er það náttúrulega ekki,“ játar Róbert og segir óþægilegt að vita ekkert um ástandið á innviðum heimabæjarins, lögnum sem rofnaði hafi í jarðhræringunum og fleiru. „Það getur tekið nokkra mánuði eða ár að koma bænum í lag eftir ef ekkert verður úr þessu gosi,“ segir Róbert Henrý Vog að lokum. Óvissan sé nagandi.

Við lokunarpóst til Grindavíkur í morgun.
Við lokunarpóst til Grindavíkur í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert