„Þessi yfirlýsing á heimasíðu SA [Samtaka atvinnulífsins] í morgun var mjög óheppileg, þar sem þeir sögðu að atvinnurekendur þyrftu ekki að borga laun í þessum aðstæðum,“ segir Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, í samtali við mbl.is.
SA birti tilkynningu á heimasíðu sinni í dag þar sem þau sögðust vera fyrirtækjum Grindavíkur innan handar hvað varðar réttindi og skyldur gagnvart starfsmönnum.
„Þetta fór ekki vel í fólkið,“ segir verkalýðsforinginn, sem hefur tekið á móti fjölmörgum símtölum frá áhyggjufullum félagsmönnum undanfarna daga, þar sem fjöldi Grindvíkinga hefur þurft að yfirgefa heimili sín vegna jarðhræringa og yfirvofandi eldgoss nálægt bænum.
Hörður fundaði aftur á móti með fulltrúum SA í dag um stöðuna í Grindavík.
Fæ ég laun um næstu mánaðamót? Hvað verður um lánin mín? Er eitthvað í boði? Er hægt að frysta þau? Get ég borgað af kortinu mínu? Á ég kannski ekkert hús lengur?
Hörður segir þessar spurningar brenna heitt á félagsmönnum sínum. „Síðan eru húsnæðismálin þriðji þátturinn,“ bætir hann við.
Hann vonar að hægt verði að útrýma þessari óvissu sem fyrst, enda ríkir þegar mikil óvissa um jarðhræringarnar.
Verkalýðsfélag Grindavíkur, sem á sér um 1.300 félaga, hefur nú flutt skrifstofur sína til Reykjavíkur tímabundið, þar sem VR bauð þeim aðstöðu í Húsi verslunarinnar við Kringluna.
„Ég get bara aldrei þakkað þeim nógu vel fyrir hvað það var tekið rosalega vel á móti okkur,“ segir Hörður.
Hann sat fund með forsætisráðherra og félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra í dag, ásamt Ragnari Þóri Jónssyni, formanni VR, og Finnbirni Hermannssyni, forseta ASÍ. Auk þess funduðu þeir með Samtökum atvinnulífsins.
„Svo höfum við einnig verið í sambandi við fjármálafyrirtækin. Þannig við erum bara að reyna að ýta þessu áfram,“ segir hann.
„Það var ýmsum hugmyndum velt upp [á fundunum] og tekið vel á móti okkur. Ég vona bara að það haldi alla leið. Ég trúi því að fólk muni leggja sig fram við þetta verkefni,“ segir Hörður, sem gekk þó út af hvorugum fundinum með skýr svör um næstu skref.
Hann segir einnig að stéttarfélögin hafi verið að safna saman orlofsíbúðum en þar sem um 1.200 íbúðir eru í Grindavík sé ljóst að félögin geti ekki náð að leysa úr þeim húsnæðisvanda ein. Grindvíkingar hafa þurft að leita sér skjóls annars staðar en heima hjá sér og sumir sofið í fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins.
„Þegar fólki var hleypt inn í bæinn fækkaði þessum símtölum, að vísu,“ segir Hörður. Hann hélt ekki sjálfur til Grindavíkur í dag, en margir Grindvíkingar fengu heimild til þess fara aftur í heimabæinn í dag til þess að sækja eigur sínar.
„Ég á tvö börn sem búa þarna og fóru í húsin sín og sóttu helstu nauðsynjar. Sonur minn fór að kíkja á íbúðina hjá mér og það gekk svo sem vel og allar okkar íbúðir eru í betra ástandi en við áttum von á,“ segir Hörður. Hann tekur þó fram að það sé afar mismunandi hvernig húsin í bænum hafa þolað jarðskjálftana.
— — —
Fréttin hefur verið leiðrétt, en þar var upphaflega ranghermt að upplýsingum á vef SA hefði verið breytt.