„Ég þori ekki út fyrir dyr heima“

Lögregla birti mynd af manninum í fjölmiðlum í haust en …
Lögregla birti mynd af manninum í fjölmiðlum í haust en er upp var staðið virðist mynd sem hann sjálfur tók á síma fórnarlambs síns hafa komið upp um hann. Ljósmynd/Aðsend

„Ég fékk tölvupóst frá lögreglunni um að maðurinn hefði verið handtekinn í gær [fyrradag] og verið yfirheyrður,“ segir kona sem varð fyrir fólskulegri líkamsárás af hendi manns er hún kom að sofandi í stigagangi fjölbýlishúss í Árbæ um miðjan ágúst. Greindi hún frá málavöxtu í viðtali hér á mbl.is í október og er enn ekki komin til heilsu eftir atburðinn.

Hafði árásarmaðurinn síma brotaþola með sér af vettvangi en í ráni símtækisins reyndist fall hans falið. Þegar viðmælandi mbl.is hafði keypt sér nýjan síma sótti sá allar myndir úr gamla símanum, þar á meðal mynd sem árásarmaðurinn hafði tekið, hugsanlega í ógáti, á viðverustað sínum, dvalarlausn fyrir erlenda farandverkamenn. Nægði sú vísbending lögreglu til að sækja grunaða heim á dvalarstaðinn þar sem hann var handtekinn.

Upplýsingar af skornum skammti

Eftir því sem brotaþoli greinir frá játaði hann brot sitt fljótlega við yfirheyrslu en gengur nú laus og sætir ekki farbanni þrátt fyrir að um meiri háttar líkamsárás sé að ræða en sex rifbein brotnuðu meðal annars í konunni auk þess sem hún stríðir við áverka á öxl og fleira.

„Þeir fundu hann út af myndinni af herberginu sem hann tók sjálfur, þetta eru svona íbúðargámar,“ segir konan sem biðst nafnleyndar í umfjöllun um málið. Kveðst hún ákaflega ánægð með þau vinnubrögð lögreglu sem leiddu til handtökunnar en síður ánægð með hve illa henni sækist að fá aðgang að upplýsingum um sitt eigið mál, svo sem hvar maðurinn hafi verið handtekinn.

Myndin sem maðurinn tók á dvalarstað sínum og nýr sími …
Myndin sem maðurinn tók á dvalarstað sínum og nýr sími brotaþola sótti. Ljósmynd/Aðsend

„Á maður ekki að hafa rétt á þessum upplýsingum? Ég skildi þetta nú ekki alveg hjá lögreglunni,“ segir konan sem nú hefur útvegað sér lögfræðing er hafa mun uppi bótakröfur hennar í málinu. „Ég fékk eitthvert blað sem fjallar um bætur sem ríkið greiðir út þar sem stóð að ég þyrfti að leggja fram skaðabótakröfu innan tveggja vikna og fékk auðvitað áfall en lögfræðingurinn sagði að ég þyrfti ekkert að velta því fyrir mér, við gætum notað tvö-þrjú ár þess vegna,“ segir hún frá.

Búin að gefa upp alla von

„Ég þori ekki út fyrir dyr heima, ég veit ekkert hvort maðurinn er á ferli,“ segir hún af andlegri líðan sinni eftir árásina en hún hefur verið óvinnufær vegna áverkanna síðan maðurinn veittist að henni í ágúst. „Hann er með símann minn og allar mínar ljósmyndir og allt.“

Veltir hún því fyrir sér hvort bara verði „slegið á puttana á honum og sagt ekki gera þetta aftur“. „Ég vil að manninum sé refsað hressilega fyrir þetta, ég vil ekki þurfa að eiga á hættu að mætu honum einhvers staðar,“ bætir hún við en viðmælandinn er á leið í aðgerð í janúar og þær verða fleiri að hennar sögn.

„Ég var bara búin að gefa upp alla von,“ segir konan um tilkynningu sem henni barst í haust um að lögregla hefði lagt málið niður. Var það þó vakið til lífsins er henni bárust myndirnar úr sínum eigin síma í september sem vörpuðu nýju ljósi á það hvar grunaði héldi til.

Nú bíður brotaþoli þess sem verða vill en kveður óvissuna eðlilega nagandi eftir að hafa orðið fyrir árás bláókunnugs manns í sumar sem nú gengur laus á ný eftir handtöku fyrr í vikunni.

mbl.is
Loka