Engar sjáanlegar skemmdir

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, ræddi við mbl.is um stöðu …
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, ræddi við mbl.is um stöðu mála. Samsett mynd

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, segir að engar sjáanlegar skemmdir séu á byggingum félagsins við Svartsengi. 

„Við fengum leyfi til koma á svæðið og meta aðstæður og það er skemmst frá því að segja að byggingarnar líta vel út og engar sjáanlegar skemmdir. Okkar fasteignir á svæðinu eru mjög vel hannaðar og byggðar til þess að takast á við náttúruvá eins og þá sem jarðskjálftar geta valdið. Það var auðvitað mikill léttir að sjá og fá staðfestingu á því að það hefur ekki orðið tjón hjá okkur,“ segir Helga við mbl.is. 

Bláa lónið lokaði starfsemi sinni þann 9. nóvember vegna jarðhræringanna á svæðinu. Lokunin átti að gilda til 16. nóvember en í gær var tekin sú ákvörðun að framlengja lokun starfsstöðva fyrirtækisins fram til 30. nóvember. Lokunin á við um allar starfsstöðvar félagsins á svæðinu þ.e. sjálft Bláa lónið, hótelin Silica og Retreat ásamt Retreat Spa og veitingastöðunum Moss og Lava. 

Starfsfólk fær greidd laun

„Við ákváðum að framlengja lokun fyrirtækisins fram að mánaðamótum og munum síðan meta stöðuna út frá því viðbúnaðarstigi sem þá verður í gildi og öðrum þáttum. Starfsemin liggur að langmestu leyti niðri en við höfum upplýst allt starfsfólk okkar að það fái greidd laun nú um mánaðamótin. Við höfum því eytt óvissu okkar starfsmanna hvað það varðar. Stjórnvöld eru síðan að vinna í að skoða hvernig hægt er leysa úr hlutunum til lengri tíma og við fylgjumst vel með því. Velferð starfsfólksins okkar skiptir okkur öllu máli og við höfum verið að taka utan um fólkið okkar eins og hægt er,“ segir Helga. 

Helga segir að eðlilega hafi verið um afbókanir þar sem starfseminni hafi verið lokað en að ekki hafi mikið borið á afbókunum lengra fram í tímann. Hún segir að allir gestir fái fulla endurgreiðslu yfir tímabilið. 

Framkvæmdirnar við varnargarðanna við Svartsengi eru í fullum gangi.
Framkvæmdirnar við varnargarðanna við Svartsengi eru í fullum gangi. mbl.is/Eyþór Árnason

Mikið í húfi að verja starfsemina

Bygging varnargarða í kringum svæðið við Svartsengi er komin á fulla ferð og er Bláa lónið innan varnargarðsins. Stjórnvöld áætla að kostnaður við byggingu varnargarðanna geti orðið 2,5-3 milljarðar króna. Borið hefur á gagnrýni að einkafyrirtæki á borð við Bláa lónið og HS Orku, sem rekur orkuverið við Svartsengi, séu ekki fengin til að taka þátt í kostnaði við gerð varnargarðanna. Spurð út í þessa gagnrýni segir Helga: 

„Eðlilega er horft til Bláa lónsins rétt eins og HS orku við gerð varnargarða. Með því er verið að verja innviði, störf og tekjur ríkisins. Hjá Bláa lóninu starfa um 800 manns og á bak við störfin eru 800 fjölskyldur. Við erum næststærsti atvinnurekandinn á svæðinu á eftir Isavia og sá langstærsti hvað varðar fjölda starfsmanna í Grindavík.

Þá eru beinar skatttekjur ríkisins og sveitafélaga af starfsemi Bláa Lónsins gríðarlegar ár hvert sem og afleiddar tekjur annarra fyrirtækja um allt land. Hér erum við að tala um milljarða og milljarðatugi ár hvert. Það er því mikið í húfi að verja starfsemina og þannig störfin og tekjur ríkisins rétt eins og aðra innviði á svæðinu. Þá má ekki gleyma að Bláa lónið er í meirihlutaeigu íslenskra lífeyrissjóða sem aftur eru í eigu almennings,“ segir Helga.

Hún bætir því við að Bláa lónið hafi síðast greitt út arð vegna rekstrarársins 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert