Kraftarnir sem valda hamförunum

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur útskýrir hvað veldur því að jörð skelfur …
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur útskýrir hvað veldur því að jörð skelfur sem raun ber vitni við Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur segir að hryggjarþrýstingur valdi öllum þeim hamförum sem orðið hafa við Grindavík á Reykjanesskaga undanfarna daga og vikur. Hann segist ekki endilega vera viss um að kvika nái að brjóta sér leið upp á yfirborðið að svo stöddu, ekki sé nægilega mikill þrýstingur á henni.

„Það eru jarðskjálftar og sprungur og þá segja menn að það komi gos. Þetta eru tveir ólíkir og óskyldir þættir,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is. 

Haraldur er eldfjallafræðingur og hefur unnið sem slíkur víða um heiminn. Haraldur býr í Rhode Island-ríki í Bandaríkjunum og ræddi við mbl.is síðdegis í dag.

„Að mínu áliti held ég að það sé svo lítil kvika á ferðinni að það verði lítið eða ekkert gos,“ segir Haraldur. „Það er margoft sem þetta hefur gerst á Íslandi,“ bætir hann við. 

Flekatogið mikilvægasti krafturinn

Haraldur útskýrir fyrir blaðamanni að tveir kollegar hans, Donald Forsyth og Seiya Uyeda, hafi á áttunda áratugnum uppgötvað að flekatog (e. slab pull) væri mikilvægasti krafturinn í flekahreyfingum jarðar. Flekarnir væru flestir hverjir tengdir við sigbelti sem síga niður í jörðina og toga elsta hluta flekans með sér niður. 

Flekarnir sem Ísland liggur á, Evrasíuflekinn til austurs og Norður-Ameríkuflekinn til vesturs, þeir eru hins vegar ekki tengdir við neitt sigbelti. Evrasíuflekinn, hann virðist alveg kyrr og rólegur, og því skiptir Norður-Ameríkuflekinn okkur meira máli. Hann er á hægri hreyfingu til vesturs, um 1 til 2 sentimetra á ári. En hvað veldur, fyrst ekkert sigbelti tengist honum? Þar kemur hryggjarþrýstingurinn (e. ridge push) til. 

Frá Grindavík í dag, 16. nóvember.
Frá Grindavík í dag, 16. nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kemur beint upp úr möttlinum

„Úthafshryggirnir, eins og Mið-Atlantshafshryggurinn sem Ísland er á, eru fjallgarðar á hafsbotni. Þeir eru ekki brattir, en þeir rísa samt upp 1 til 2 km yfir hafsbotninn umhverfis. Úthafshryggurinn myndast og rís upp fyrst og fremst vegna þess, að þegar tveir flekar gliðna eða færast í sundur, þá myndast rúm fyrir efri hluta möttuls að mjaka sér upp í bilið. Möttullinn sem rís upp í bilið kemur af meira dýpi í jörðinni og er því heitari en umhverfið,“ segir Haraldur. 

Hann heldur áfram að útskýra að vegna hitans hafi hann lægri eðlisþyngd. Þessi fleygur af heitara og léttara efni milli flekanna veldur kraftinum sem nefnir hryggjarþrýstingur. 

„Þetta er að öllum líkindum krafturinn sem mjakar Norður-Ameríkuflekanum til vesturs, og veldur skorpuhreyfingunum á Reykjanesi. Hryggjarþrýstingurinn fer í gang vegna þess að heitari og léttari möttull rís upp milli flekanna, sem ýtast þá í sundur. Það er því þyngdarlögmálið sem stýrir þeim krafti,“ segir hann.

Fjallið Þorbjörn í forgrunni og bak við það hvílir Grindavík.
Fjallið Þorbjörn í forgrunni og bak við það hvílir Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gosbeltið færist vestur

Haraldur útskýrir að þá myndist brekka beggja vegna við. Á báðum hliðum sé skorpa sem mjakast niður brekkuna bæði til austurs og vesturs, þó meira til vesturs.

„Af því að Evrasíuflekinn hreyfist ekki neitt, þá er gosbeltið alltaf að færast til vesturs. En á Íslandi þá er gosbeltið alltaf að elta heita reitinn. Þess vegna erum við með þennan legg austur í gegnum landið. Þá er hann alltaf að hlaupa beint austur yfir í Vatnajökul, norður, og svo aftur til vesturs í Kolbeinseyjarhrygginn. Þetta er mjög óeðlilegt. Enda hefur komið fyrir að gosbeltið hefur gefið skít í þetta og sagt: „Nú ætla ég ekki að fara austur, nú ætla ég að fara beint frá Reykjaneshrygg upp í gegnum Þingvelli og upp í Skaga og norður í Kolbeinseyjarhrygginn.“ Þá er Vestra gosbeltið sem er virkt. Þetta hefur gerst og við getum kallað þetta skammhlaup,“ segir Haraldur sem er þó heldur kominn út fyrir upphaflegt umræðuefni og ástæðu þess að blaðamaður hringdi vestur til Bandaríkjanna. 

Kvikunni liggur ekkert á

Spurður hvort hann telji að kvika komi upp núna, líkt og hann gerði um síðustu helgi, þegar hann velti fyrir sér hvað ný eyja, sem ætti að koma upp suðvestur af Grindavík, ætti að heita segist hann ekki vera svo viss.

Ekki sé nægilega mikill þrýstingur á kvikunni á flekaskilunum. „Þar er ekki næg kvika til að gutla upp á yfirborðið. Það er greinilegt að henni liggur ekkert á. Það er lítill eða enginn þrýstingur,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert