„Covid stal af okkur 45 ára afmælinu“

Frá afmæli Ástundar.
Frá afmæli Ástundar. mbl.is/Árni Sæberg

„Covid stal af okkur 45 ára afmælinu og þess vegna ætlum við að fagna á hverju ári,“ segir Guðmundur Arnarsson, Mummi, í Ástund en fyrirtækið fagnar 47 ára afmæli þessa dagana.

Aðspurður frábiður Guðmundur, betur þekktur sem Mummi, sér titlatog og segist aldrei hafa kallað sig eiganda eða verslunarstjóra eða nokkuð í þeim dúr frekar en aðrir í fjölskyldunni. Ástæðan er sú að um er að ræða fjölskyldufyrirtæki þriggja kynslóða sem vinni að versluninni í sameiningu. 

„Við erum svona „old school“ að því leyti að við höfum alltaf verið á sama stað, rekin af sama eiganda og erum meira að segja á sömu kennitölu og í upphafi,“ segir Guðmundur en fyrirtækið er staðsett á Háaleitisbraut 68. 

Núll, kreppur, hrun og Covid 

Hann segir að vissulega hafi gengið á ýmsu í rekstrinum eins og gengur en alltaf hafi fyrirtækið náð að sigla í gegnum það. „Það voru núll tekin aftan af krónunni, kreppur, bankahrun og Covid en við höfum alltaf náð að standa í lappirnar,“ segir Mummi.

Ástund var stofnuð árið 1976 og var upphaflega ritfanga og bókabúð sem seldi hestavörur, veiðivörur og leikföng. Síðan tók fyrirtækið beygju og tók upp fimleika, dans og ballettvörur en gaf bóksöluna upp á bátinn. Á tíunda áratugnum átti Ástund svo í samstarfi við Fram og Val og fleiri félög og sá þeim fyrir íþróttavörum. Síðar varð fyrirtækið Manchester United-verslun og seldi vörur merktar félaginu. Í dag eru hestavörurnar mest áberandi.

Rolls Royce hnakki 

„Við höfum verið óhrædd að breyta þegar eitthvað viðskiptaplan gengur ekki upp. Í dag erum við þekktust fyrir hestavörur og búum til Rolls Royce-hnakka sem þekktir eru um allan heim undir okkar nafni. Þá höfum við líka tekið í sölu Tommy Hilfiger- og Hugo Boss-hestavörur sem við erum að kynna þessa dagana," segir Mummi.

Að sögn hans er hestaáhuginn fjölskyldunni í blóð borinn og hefur hún staðið í hestarækt um árabil. Í eigu hennar er Hylur frá Flatbjarnarholti sem er heimsmetshafi fyrir byggingu. Lét hann sig ekki vanta í afmælisboð sem Ástund hélt í tilefni af tímamótunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert