Kort: Svona myndi hraun renna við Svartsengi

Sundhnúkur og Hagafell liggja yfir kvikuganginum, sem nær frá gígaröðinni …
Sundhnúkur og Hagafell liggja yfir kvikuganginum, sem nær frá gígaröðinni og í suð-suðvestur undir Grindavík. Kort/mbl.is

Fari að gjósa í grennd við virkjunina í Svartsengi er líklegt að hún verði fyrir hraunrennsli. 

Þetta sýna hraunflæðilíkön sem gerð voru á vegum Veðurstofunnar og nýttust til grundvallar skýrslu sem skilað var í sumar, þar sem gert var langtímahættumat vegna eldgosa á Reykjanesskaga vestan Kleifarvatns.

Virkjunin sér um 31 þúsund manns fyrir rafmagni og heitu vatni.

Kortið sýnir hvernig gos gætu haft áhrif eftir því hvar …
Kortið sýnir hvernig gos gætu haft áhrif eftir því hvar þau kæmu upp. Kort/Veðurstofa Íslands

Aðalvatnstökusvæði HS Veitna

Vatnstökusvæðið í Lágum er einnig útsett fyrir hraunrennsli, en það liggur í lægð í landslagi og mögulegt gos á töluverðu svæði getur skilað hrauni þangað.

Um er að ræða aðalvatnstökusvæði HS Veitna.

Fram kemur í skýrslunni að Bláa lónið, virkjanir í Svartsengi og á Reykjanesi og vatnstökusvæðið í Lágum séu öll útsett fyrir hraunrennsli.

Svartsengi sveipað rökkurhúmi. Undir niðri krauma kraftar og ógna þeirri …
Svartsengi sveipað rökkurhúmi. Undir niðri krauma kraftar og ógna þeirri virkjun sem annars hefur beislað þá í áratugi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Línan sker í sundur Hagafell

Með fylgir kort þar sem það land er afmarkað, þar sem gossprungur geta orðið og veitt hrauni inn í Svartsengi og Bláa lónið.

Landið er afmarkað með rauðum línum, en breið lína afmarkar upptök miðlungsstórra hrauna, um 0,3 rúmkílómetra að stærð, og mjó lína afmarkar upptök lítilla hrauna, um 0,02 rúmkílómetra að stærð.

Til sam­an­b­urðar var rúm­mál fyrsta goss­ins í Fagra­dals­fjalli 0,15 rúm­kíló­metr­ar, en talið er að mun meira magn kviku sé á ferð nú en þá.

Á kortinu má glögglega sjá hvernig mjóa línan sker í sundur Hagafell, austur af Þorbirni. Þar telja margir jarðvísindamenn líklegast að gos komi upp, verði af því.

Þegar er unnið að gerð varnargarða við virkjunina í Svartsengi, eins og sjá má á vefmyndavél mbl.is sem snýr að Hagafelli.

Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli, þar sem …
Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli, þar sem gos þykir einna líklegast. mbl.is/Eggert Johannesson

Fyrirboðinn óþekktur

Tekið er fram að á árunum 1230 til 1240 hafi hraun myndast í sprungugosum á Svartsengiskerfinu sem ná yfir 50 ferkílómetra. Rúmmál þeirra er stærra en 0,3 rúmkílómetrar. Er það síðasta goshrinan í kerfinu fram á okkar dag.

Fyrirboðar og viðvörunartími slíkra gosa er í skýrslunni sagður óþekktur,  en er talið svipað því sem sást fyrir upphaf goss í Fagradalsfjalli árið 2021. Það er, aukin skjálftavirkni og þensla dögum, vikum, mánuðum fyrir upphaf goss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert