Bíllinn kastaðist upp í loft á veginum

Hér má sjá hvernig Grindavíkurvegur breyttist í nokkurs konar stökkbretti.
Hér má sjá hvernig Grindavíkurvegur breyttist í nokkurs konar stökkbretti. Samsett mynd

„Þegar við erum komin að afleggjaranum hjá Bláa lóninu fer bíllinn að rása á veginum, þó ekki yfir á rangan vegarhelming. Fyrst hélt ég að þetta væri hálka en átta mig svo á að þetta var stór skjálfti sem kom beint við hliðina á bílnum. Við höldum áfram á um 90 kílómetra hraða en aðstæður voru þannig að það var myrkur og umferð á móti, svo bíllinn var á lágu ljósunum.“

Þetta segir Garðbæingurinn Sighvatur Arnarsson í samtali við blaðamann mbl.is en hann lenti í heldur ótrúlegri lífsreynslu, ásamt Ingunni konu sinni, þann 10. nóvember, daginn sem Grindavíkurbær var rýmdur, þegar bíll þeirra hjóna flaug í loft upp á miðjum Grindavíkurvegi.

Sighvatur hafði fyrr um daginn fylgst með skjálftunum á Reykjanesskaga í gegnum app í símanum sínum og var hætt að lítast á blikuna þegar hann hafði fengið tilkynningu um 24 skjálfta á klukkustund. Þau hjónin tóku þá á það ráð að hringja í vinafólk sitt í Grindavík, þau Kollu 87 ára og Kára 89 ára, til að taka á þeim stöðuna.

„Meðan á símtalinu stóð komu ítrekað skjálftar og eftir að símtalinu lauk ákváðum við að bruna til Grindavíkur og sækja vini okkar,“ segir hann.

Lentu á aflíðandi stökkbretti

Þegar bíllinn fór að rása sáu þau hjónin allt í einu stóran, gráan og lóðréttan vegg, að þeim sýndist, birtast fyrir framan þau á veginum.

„Okkur fannst hann vera rétt innan við 50 cm á hæð en þetta gerðist svo snöggt að það var ekki nokkur möguleiki að bremsa bílinn. Bíllinn fór því á fullri ferð á „vegginn“ sem í raun og veru var aflíðandi stökkbretti,“ segir hann.

Að sögn Sighvats flaug bíllinn við þetta upp í loft sem varð til þess að þau hjónin ráku bæði höfuðið í þakið á bílnum þegar hann lækkaði flugið aftur.

„Hann lendir fyrst á hægra framhjólinu því skábrautin var hærri bílstjóramegin. Við lendinguna stefndi bíllinn yfir á ranga akrein en þar var fullt af bílum. Ósjálfrátt þá leiðrétti ég stefnuna á bílnum með því að snúa stýrinu lítillega til hægri, því við vorum eins og áður segir á um 90 kílómetra hraða.“

Þau Ingunn voru þess fullviss að dekkin hefðu sprungið við höggið þegar bíllinn lenti. Segist Sighvatur hafa haldið að bíllinn væri „í köku“ að framanverðu.

„En til að komast úr þessum aðstæðum þá héldum við rakleitt áfram áleiðis til gömlu hjónanna, því bíllinn virtist vera ökufær.“

Frá Grindavík í gær, 17. nóvember.
Frá Grindavík í gær, 17. nóvember. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allt á rúi og stúi

Segir hann atburðarásina í framhaldinu lýsa vel ástandinu í Grindavík þennan dag.

„Þegar við komum að blokkinni, um klukkan 18, þá mætum við fólki sem var að hraða sér út. Sögðu þau okkur að það væri ekki hægt að vera þarna lengur og því væru þau farin. Þegar inn var komið gekk ég að lyftunni, sem reyndist vera föst á 1. hæð. Þá reið yfir öflugur skjálfti og hávaðinn var mikill enda heyrðist lyftan hendast til og frá í veggina, vírarnir slógust utan í þá og gólfið sveiflaðist til og frá. Við Ingunn fórum því upp tröppurnar og upp á 6. hæð,“ segir hann.

Þá hafi blasið við þeim heldur ófögur sjón.

„Þegar inn var komið var allt á rúi og stúi. Kári sat í stól sem lamaður og starði fram fyrir sig. Myndir og lausamunir lágu á gólfinu. Þá reið annar skjálfti yfir og síðan sá þriðji. Ég studdi Kára niður fimm hæðir því hann gengur við hækjur og er með ónýt hné. Þegar við vorum komnir niður á jarðhæð þá athugaði ég í augnablik skemmdir á bílnum, því ég var ekki viss um að hann væri ökufær, en hann virtist hafa þolað höggið.“

Á leiðinni til baka keyrðu þau Suðurstrandarveginn og segir Sighvatur að þar hafi myndast löng röð af rauðum afturljósum bíla.

„Við Ingunn erum með þolanlega verki í bakinu eftir þetta en það ríkir meiri óvissa um heilsuna á bílnum, fljúgandi Volvóinum,“ segir hann að lokum.   

mbl.is