Ekki lífshættuleg gos á Reykjanesi

Þor­vald­ur Þórðar­son er pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands.
Þor­vald­ur Þórðar­son er pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands. mbl.is/Arnþór

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir höfuðborgarsvæðinu ekki stafa hættu af gosi sem muni leggja byggðir í eyði og valda fjöldadauða. „Reykjanesið er ekki að fara að fá eldgos sem eru lífshættuleg. Við getum fengið stóra skjálfta og megum ekki gleyma því að þeir eru líka vá. Að mínu mati er líklegra að skjálftar geti tekið mannslíf en eldgos,“ segir Þorvaldur í ítarlegu viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Spurður um ólíkar túlkanir vísindamanna á jarðhræringum við Grindavík segir Þorvaldur: „Það er mikil óvissa í öllu þessu sem gerir að verkum að það eru alltaf til fleiri en ein sviðsmynd. Það sem mér finnst hafa gerst hjá okkur er að menn hafa fest sig við ákveðna sviðsmynd og ákveðna túlkun og gleymdu að taka tillit til annarra möguleika.

Mitt eðli er þannig að ég vil taka tillit til allra möguleika sem ég sé og skoða þá frá mörgum sjónarhornum. Síðan reynir maður að vega og meta hvað gögnin segja og hvort þessi sviðsmynd sé líklegri en hin. Og ef maður getur ekki gert upp á milli þá verður maður að taka tillit til beggja.“

Nán­ar er rætt við Þor­vald í sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina