Fannar gleymir aldrei símtalinu örlagaríka

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segist seint munu gleyma símtalinu …
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segist seint munu gleyma símtalinu um að kvikugangur lægi undir Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, segist seint munu gleyma símtalinu örlagaríka sem hann fékk föstudaginn 10. nóvember þar sem honum var tjáð að sterkar líkur væru að kvikugangur lægi undir Grindavík. 

„Ég held að þetta símtal sem ég fékk gleymist kannski seint, en ég er viss um að öll okkar sem vorum í Grindavík þá og þurftum að yfirgefa bæinn okkar munum ekki gleyma þeim degi né heldur þessum síðustu átta dögum sem eru liðnir síðan,“ sagði Fannar á samverustund í Keflavíkurkirkju síðdegis í dag. 

Símtalið fékk hann frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra upp úr hádegi. „Sá sem talaði sagði: Þú hefðir helst ekki viljað fá þetta símtal,“ sagði Fannar. 

Sagði hann tíðindin miklu verri en allar þær spár sem gerðar hafa verð á síðustu árum með tilliti til eldvirkni á Reykjanesskaga. 

mbl.is