Frumvarp um kílómetragjald á hreinorkubíla

Leggja á kílómetragjald á notkun rafmagnsbíla um áramótin.
Leggja á kílómetragjald á notkun rafmagnsbíla um áramótin. mbl.is/Árni Sæberg

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um að tekið verði upp kílómetragjald vegna notkunar rafmagns- og vetnisbíla og tengiltvinnbíla frá og með næstu áramótum. Verður gjaldið sex krónur vegna aksturs rafmagns- og vetnisbíla og tvær krónur vegna tengiltvinnbíla.

Um er að ræða fyrsta skrefið til að lögfesta nýtt tekjuöflunarkerfi af ökutækjum og eldsneyti. Fyrirhugað er að annað frumvarp um kílómetragjald vegna notkunar allra annarra ökutækja á vegakerfinu verði lagt fram á Alþingi í vor.

Fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að verði það að lögum um áramótin muni tekjuauki ríkissjóðs nema rúmlega þremur milljörðum króna.

Í athugasemdunum kemur einnig fram að gera megi ráð fyrir að skattlagning á notkun bifreiða hafi mismunandi áhrif á kynin. Kynbundin notkun á samgöngukerfinu hafi verið greind í nokkrum rannsóknum hér á landi undanfarin ár. Ferðavenjukannanir og kannanir á ferðum innan vinnusóknarsvæða hafi sýnt fram á að konur noti einkabílinn ekki síður en karlar. Umtalsverður kynjamunur sé þó á eignarhaldi ökutækja þar sem karlar séu skráðir eigendur tæplega ²/³ fólks- og sendibíla. Þá séu bílar í eigu kvenna almennt léttari og losi minna af gróðurhúsalofttegundum en bílar í eigu karla. Af því megi ráða að kílómetragjaldið muni leggjast í meiri mæli á karla en konur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Loka