Hyggjast ekki snúa aftur til Grindavíkur

Guðjón og Ayça, sem búsett eru í Grindavík, eignuðust sitt …
Guðjón og Ayça, sem búsett eru í Grindavík, eignuðust sitt fyrsta barn á dögunum. Ljósmynd/Guðjón Sveinsson

„Ég held að við séum búin að ákveða að snúa ekki aftur,“ segir Grindvíkingurinn og nýbakaði faðirinn Guðjón Sveinsson.

Guðjón og eiginkona hans Ayça Erişkin, sem eignuðust sitt fyrsta barn á miðvikudag, segjast ekki treysta sér til þess að flytja aftur til Grindavíkur, sérstaklega eftir að þau urðu foreldrar. 

„Ég myndi kannski treysta mér til þess að snúa aftur, en ég held að konan mín treysti sér ekki til þess síðar meir. Það er óþægilegt að búa við þetta ástand og þó þetta deyi niður núna getur sambærileg staða alveg komið upp aftur. Nú þegar við erum komin með barnið langar okkur að finna fast heimili,“ segir Guðjón. 

Öll fjölskyldan í Grindavík

Guðjón, sem er fæddur og uppalinn í Grindavík, flutti þangað að nýju í sumar eftir að hafa búið annars staðar um nokkuð skeið. Ayça, eiginkona Guðjóns, er frá Tyrklandi og hefur verið búsett á Íslandi í tæp fjögur ár. 

„Við vorum búin að búa í bænum þangað til í sumar. Þá gátum við stækkað við okkur og komið okkur fyrir í góðu húsnæði í Grindavík sem við vorum búin að undirbúa fyrir barnið,“ segir Guðjón. 

„Fjölskyldan mín er öll úr Grindavík, meira og minna. Bæði foreldrar mínir, systkini og stór hluti af fjölskyldunni eru búsett þar þannig að við komum þangað til þess að vera nálægt fjölskyldunni.“

„Ekki óskastaðan að vera á hálfgerðum vergangi“

Sonur Guðjóns og Ayçu fæddist á Landspítalanum síðastliðinn miðvikudag, en að sögn Guðjóns heilsast bæði móður og barni vel. Þau dvelja nú í sumarbústað sem er í eigu foreldra Guðjóns, sem kveðst þakklátur fyrir að eiga sterkt bakland. 

„Við erum mjög heppin að eiga sterkt bakland. Við erum svo sem ekki í vandræðum með að finna húsnæði en það er kannski ekki óskastaðan að vera á hálfgerðum vergangi og að leita að húsnæði á þessum tíma,“ segir Guðjón.

Guðjón segir soninn ekki komast hjá því að vera Grindvíkingur …
Guðjón segir soninn ekki komast hjá því að vera Grindvíkingur í hjartanu. Ljósmynd/Guðjón Sveinsson

Guðjón og Ayça voru þegar farin með flestar nauðsynjar úr Grindavík þegar ákveðið var að rýma bæinn aðfaranótt laugardagsins 11. nóvember. 

„Við erum í frekar góðri stöðu miðað við marga og þrátt fyrir þetta,“ segir Guðjón. „Þetta tekur auðvitað á að ákveðnu leyti en við höfum það sterkt bakland að við erum alltaf örugg og getum alltaf fundið húsaskjól. Þetta eru bara svona skyndilegar breytingar sem maður lagði ekki upp með og eitthvað sem maður hafði ekki stjórn á.“

Sonurinn verði alltaf Grindvíkingur í hjartanu

Að sögn Guðjóns fer vel um litlu fjölskylduna í sumarbústaðnum í bili og ætla nýbökuðu foreldrarnir að nýta fæðingarorlofið til þess að finna út úr því hvað taki við. Þó segir hann erfitt að hugsa til þeirrar óvissu sem ríki um framtíð Grindavíkur. 

„Maður er alveg tilbúinn að búa annars staðar, en það er erfitt að hugsa til þess að heimabærinn manns færi ef allt skyldi fara á versta veg,“ segir Guðjón. 

Loks segir Guðjón að litli drengurinn verði alltaf Grindvíkingur þó ekki líti út fyrir að fyrirætlanir litlu fjölskyldunnar um að setjast að í bænum verði að veruleika. 

„Hann verður það auðvitað í hjartanu, það er óhjákvæmilegt, alveg sama hvernig fer.“

mbl.is