Mjög góð mæting frá björgunarsveitunum

Verðmætabjörgun hélt áfram í Grindavík í dag.
Verðmætabjörgun hélt áfram í Grindavík í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, segir að vel hafi gengið í dag hvað varðar verðmætabjörgun í Grindavík.

Klukkan 9 í morgun hófst verðmætabjörgun íbúa Grindavíkur þar sem eigendur 100 fasteigna fengu leyfi til að fara inn á svæðið og klukkan 15 var fyrirtækjum hleypt inn á svæðið. Aðeins þeir sem fengu boð áttu þess kost á að bjarga verðmætum í dag.

„Að okkar mati hefur gengið mjög vel í dag. Það gengur allt betur með hverjum degi sem líður. Við höfum haldið áfram að hleypa íbúum inná svokallaða rauða hættusvæði og eftir klukkan 15 fengu smáfyrirtækin að koma. Við byrjuðum líka að hleypa fólki inn á gula svæðið,“ segir Gunnar við mbl.is.

Nýja skráningarkerfið hefur hjálpað til

Teljið þið að allir íbúar hafi fengið að fara inn í hús sín alla vega einu sinni?

„Við getum ekki sagt til um það. Við höfum ekki alveg yfirlit yfir þá sem hafa komið en þetta nýja skráningarkerfi á Ísland.is hefur hjálpað mikið til og hefur létt álaginu. Svo stýrir líka viðbragsaðilar okkar getunni í þessu verkefni. Núna er helgi og sjálfboðaliðarnir eiga auðveldara með að taka þátt í verkefninu. Um helgina var mjög góð mæting frá björgunarsveitunum,“ segir Gunnar.

Gunnar segir að morgundagurinn verði með svipuðum hætti og var í dag. Hann segir að það eigi eftir að koma í ljós með mönnun viðbragðsaðilanna en stefnt sé að því að fyrirkomulagið verði eins og í dag en það sé alltaf að virka betur og betur.

„Við höfum verið að miða við að þessar aðgerðir standi yfir í dagsbirtu sem geta kannski aðeins teygt sig fram eftir degi. Við erum sátt hvernig þetta hefur gengið og vonandi eru bæjarbúar það líka,“ segir Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert