Byrjaðir að afbóka eða færa til bókanir

Jóhannes, segir að tilvonandi ferðamenn til landsins séu sumir hverjir …
Jóhannes, segir að tilvonandi ferðamenn til landsins séu sumir hverjir farnir að afbóka ferðir sínar eða færa þær til vegna óvissuástandsins.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í samtali við mbl.is að tilvonandi ferðamenn til landsins séu sumir hverjir farnir að afbóka ferðir sínar eða færa þær til vegna óvissuástandsins sem ríkir á Reykjanesskaga varðandi mögulegt eldgos. Ýktur erlendur fréttaflutningur gæti útskýrt hluta af þessu.

Spurður hvort það beri á afbókunum hjá ferðaþjónustufyrirtækjum um þessar mundir, og þá jafnvel hvort að misvísandi erlendar fréttir um þá hættu sem stafar af mögulegu eldgosi leiki þar hlutverk, segir hann svo vera.

„Já, já, við höfum alveg orðið vör við það. Kannski er það svo sem ekki óeðlilegt, fréttaflutningur er með ýmsu tagi af þessu erlendis. Það verður þó að segjast að það er meira um það að það sé að hægjast á nýjum bókunum. Fólk er svona aðeins að bíða og sjá,“ segir Jóhannes.

Færri bókanir næstu tvo mánuði en á sama tíma í fyrra

Hann segir að það séu færri bókanir hjá ferðaþjónustufyrirtækjum næstu tvo mánuði en á sama tíma í fyrra en að fólk sé ekki endilega að afbóka í stórum stíl. Margir séu einfaldlega að færa bókanir og fresta ferðalagi til landsins fram yfir áramót.

„Kannski er fólk sem átti bókað núna flug og hótel næstu 4-6 vikur, eða fram að jólum, að flytja sínar bókanir fram yfir áramót. Það er tilhneiging sem við erum að sjá hjá fólki, að það flytur flug og hótel, en svo afbókar það hins vegar það sem það bætir við,“ segir hann og útskýrir að það séu þá til dæmis ýmis afþreying og bílaleigubílar sem séu mest að verða fyrir afbókunum.

„Þess vegna eru afbókanirnar frekar að koma fram hjá afþreyingu, bílaleigum, dagsferðum og slíku frekar en hjá til dæmis hótelum. Hótelin merkja það ekki sem afbókun ef bókunin er flutt.“

Hann segir að þessar afbókanir og tilfærslur á bókunum séu að einhverju leyti eðlileg viðbrögð ferðamanna miðað við aðstæður og í ljósi frétta á erlendum miðlum.

Íslandsstofa haft samband við erlenda fjölmiðla

Búið er að virkja viðbragðsáætlun ferðaþjónustunnar og hluti af því er samræming á upplýsingagjöf. Samtök ferðaþjónustunnar, Íslandsstofa, utanríkisráðuneytið, ferðamálastofa og almannavarnir vinna nú að því að samræma nýjustu upplýsingagjöf á helstu vefsíðum eins og á government.is, Visit Iceland, Safe travel og fleiri vefsíðum um nýjustu upplýsingar frá almannavörnum.

Þeim upplýsingum sé svo hægt að koma áleiðis á erlendar ferðaskrifstofur sem geta þá upplýst viðskiptavini sína betur.

„Síðan hefur Íslandsstofa verið að fylgjast með og hafa samband við fjölmiðla erlendis varðandi það hvernig þetta er allt saman sett fram,“ segir Jóhannes.

mbl.is