Eftirlýstur drengur er hjá móður sinni

Samtökin Líf án ofbeldis segjast telja eftirlýsinguna á drengnum stríða …
Samtökin Líf án ofbeldis segjast telja eftirlýsinguna á drengnum stríða gegn mannréttindum drengsins á fjölmarga vegu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Móðir drengsins sem lögreglan lýsti eftir fyrr í dag, að beiðni barnaverndaryfirvalda í Reykjavík, segir að drengurinn sé hjá sér. Hún kveðst vera búin að kæra starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur fyrir skjalafals og brot á hegningarlögum við vinnslu málsins.

„Lögreglan er að lýsa eftir barninu mínu, sem barnavernd og lögregla eru upplýst um að er hjá mér, forsjárforeldri sem matsmaður hefur metið með fulla forsjárhæfni fyrir dómi,“ skrifar móðirin á Facebook.

„Barnavernd hefur aldrei haft áhyggjur af börnunum mínum í minni umsjá, fyrr en Barnavernd Reykjavíkur tók við málinu í vor,“ segir hún og bætir við að ástæðan fyrir þessari leit sé sú að hún hafi hætt að mæta með drenginn í lyfjagjöf á Barnaspítalanum.

Segir að Barnavernd og lögreglan hafi vitað um staðsetningu drengsins

Segir hún að Barnavernd og lögreglan hafi vitað um staðsetningu drengsins. Seinna í færslunni skrifar hún:

„Ég held að barnið mitt eigi mögulega Íslandsmet í að hafa orðið fyrir mannréttindabrotum af hendi íslenska ríkisins.“

Segja barnið ekki í hættu hjá móður sinni

Samtökin Líf án ofbeldis segjast telja eftirlýsinguna á drengnum stríða gegn mannréttindum drengsins á fjölmarga vegu. Stjórnvöld séu að brjóta á friðhelgi barnsins að tilefnislausu og að valda drengnum óafturkræfu tjóni.

„Eins og ríkið hefur nú þegar gert þegar barnið var tekið með valdi af barnaspítalanum í sjö tíma aðgerð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu með liðsinni lögreglu og barnaverndar, eins og fréttist vel um landið og var mótmælt kröftuglega,“ segir í færslu samtakanna á Facebook.

„Tveir ráðherrar hafa þegar gagnrýnt slíka aðför þar sem barn þiggur heilbrigðisþjónustu. Móðurinni ber beinlínis skylda til að vernda barn sitt frá sambærilegum áföllum sem nú þegar hafa skaðað barnið fyrir lífstíð.“

Í þeirra máli kemur fram að barnið sé ekki á neinn hátt í hættu hjá móður sinni.

mbl.is