Eins og að vera í miðri senu í bíómynd

Tómas Logi á vaktinni.
Tómas Logi á vaktinni. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er fordæmalaust,” segir Tómas Logi Hallgrímsson úr björgunarsveitinni Sigurvon og aðgerðastjórnandi í stjórnstöð almannavarna, um upplifun sína sem sjálfboðaliði að undanförnu.

Hann hefur verið á útkallslista björgunarsveitarinnar í 19 ár og man ekki eftir öðru eins.

„Þetta líkist ekki neinu sem ég hef tekið þátt í eða nokkurn tímann einhverju sem er búið að búa okkur undir,” segir Tómas Logi, spurður út í samanburðinn á því sem gerst hefur að undanförnu í Grindavík og fyrri verkefnum hans sem björgunarsveitarmaður.

Ljósmynd/Aðsend

10 dagar í röð

Í nýlegri facebookfærslu vill hann benda á hlutverk sjálfboðaliðans í öllu ferlinu. Hann segist starfa af miklu stolti sem sjálfboðaliði en nefnir að fjölskylda hans og vinnufélagar séu einum færri á meðan. Núna hefur hann til að mynda staðið vaktina í 10 daga í röð í aðgerðastjórninni. 

„Sef vel þessa átta tíma“

Spurður nánar út í þetta kveðst hann starfa frá klukkan 8 til 16 sem rafvirki. Eftir það tekur við átta tíma vakt til miðnættis í aðgerðastjórn.

„Ég sef vel þessa átta tíma sem ég fæ, sérstaklega eftir að það hætti að hristast,” segir hann, spurður út í svefninn.

Ljósmynd/Aðsend

Tómas Logi segist hafa upplifað furðulega tíma að undanförnu, þar á meðal þegar hann sá suma Grindvíkinga yfirgefa bæinn áður en rýmingin hófst. Voru þeir búnir að fá nóg eftir alla jarðskjálftana sem höfðu gengið yfir. „Mér leið eins og ég væri staddur í miðri senu í bíómynd. Fólk var að bera dótið út í bíla og fara og það var grafarþögn,” lýsir hann.

Geggjað að endurbyggja bæinn 

Í gær fór hann síðan inn í Grindavík í fyrsta sinn síðan á föstudag og gat skoðað bæinn með eigin augum. Það hafi verið tvennt ólíkt að sjá ástandið á myndum og að sjá það síðan með berum augum.

Tómas Logi hvetur fólk til að einblína ekki á skaðann í Grindavík því stór hluti bæjarins sé í lagi. „Grindavíkurbær er ekki rústir einar,” segir hann og bætir við: „Grindavíkurbúar ætla að endurbyggja bæinn sinn og mér finnst það bara geggjað.”

mbl.is