Í brimbrettabjörgun til að dreifa huganum

Ivan og Páll fóru til Grindavíkur í dag til að …
Ivan og Páll fóru til Grindavíkur í dag til að bjarga nauðsynjum og huga að brimbrettum.

„Við ætlum að reyna að ná í einhver brimbretti svo maður geti aðeins dreift huganum,“ segir Ivan Jugovich sem ásamt Páli Erlingi Pálssyni beið þess að komast inn í Grindavík við lokunarpóst í dag.

Þeir félagarnir eru frumkvöðlar í brimbrettasportinu í Grindavík. Brimbrettabjörgun var þó ekki eini tilgangur heimferðarinnar heldur ætluðu þeir félagar að fara að heimili Páls og föður hans til að ná í nauðsynjar.

„Við erum búnir að fá að fara einu sinni, við pabbi. Við náðum að setja allt út á gólf á föstudeginum sem rýmingin var og það eina sem brotnaði var lampi. Það er allt og sumt,“ segir Páll sem býr í húsi á rauðu svæði ásamt föður sínum.

Ivan á einnig fasteign á rauðu svæði í Grindavík en hann býr í húsi foreldra sinna sem einnig er á rauðu svæði.

Lögreglan stendur vaktina við lokunarpóst.
Lögreglan stendur vaktina við lokunarpóst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt í góðu nema sigið segi annað

Báðir segja þeir ekkert gefa til kynna að hús þeirra hafi orðið fyrir skemmdum. „Maður er svo sem ekkert búinn að kanna hallann og hvort þetta sé sigið, en það er ekkert að sjá enn sem komið er,“ segir Ivan.

Spurðir hvers vegna þeir hyggist nálgast brimbretti um miðjan vetur segja þeir veturna aðal tímann fyrir brimbretti því þá sé aldan kröftug.

„Svo erum við líka með helling af brimbrettum inni í bílskúr sem við erum að smíða og gera við fyrir aðra. Það eru talsverð verðmæti í þessu,“ segir Páll.

Veður var ekki með besta móti í dag og heldur …
Veður var ekki með besta móti í dag og heldur hráslagalegt við lokunarpóstinn þar sem nokkur fjöldi bíla beið.
mbl.is