Krefjandi fyrir börn að aðlagast nýjum aðstæðum

Jóhanna Lilja Birgisdóttir, önnur frá vinstri, á upplýsingafundi almannavarna í …
Jóhanna Lilja Birgisdóttir, önnur frá vinstri, á upplýsingafundi almannavarna í morgun. mbl.is/Arnþór

Jóhanna Lilja Birgisdóttir, yfirsálfræðingur á félagsþjónustu- og fræðslusviðs Grindavíkur, segir fjölmargar áskoranir sem tengjast skóla og leikskólamálum fyrir börn og unglinga í Grindavík í þvi ástandi sem ríkir vegna náttúruhamfaranna á svæðinu.

„Þessar áskoranir beinast kannski sérstaklega að því fólki sem er ekki komið með tryggt húsnæði. Það er mikilvægt fyrir okkur að hugsa þannig að börn fari ekki að aðlagast nýjum skóla en fari svo að flytjast á milli. Það er krefjandi fyrir börn að fara inn í skóla og aðlagast nýjum aðstæðum á meðan þau eru líka á þessu óvissustigi og foreldrar og börn í áfalli vegna þessara atburða,“ segir Jóhanna Lilja í samtali við mbl.is.

Ákveðinn fjöldi barna byrjaðir í skólum

Er eitthvað af börnunum úr Grindavík byrjuð í öðrum skólum?

„Já það er ákveðinn fjöldi barna byrjaðir í grunnskólum sem og í leikskólum. Þetta eru þau börn sem eru kannski með tryggara húsnæði. Fólk er víðs vegar. Sumt er í sumarbústöðum og aðrir eru inni á ættingjum og vinum,“ segir Jóhanna Lilja.

Hún segir að verið sé að taka saman tölur hversu mörg börn hafa hafið grunnskólagöngu á nýjan leik. Öllum börnum í Grindavík stendur til boða að ganga í hverfisskóla síns búsetuhverfis. Foreldrar geta innritað börn sín í hverfisskólana og hafa þá samband við stjórnendur viðkomandi hverfisskóla.

Þá verða safnskólar í boði á nokkrum stöðum í Reykjavík frá og með næsta miðvikudegi en þar verður skipt í hópa eftir aldri og kennarar úr Grindavík verða með börnunum.

„Við erum með þessar tvær leiðir. Það er í fyrsta lagi það að fólk sem telur sig vera komið með nokkuð tryggt húsnæði hefur það val, og það hafa allir þann valkost, að fara með barnið sitt í næsta hverfisskóla. Í öðru lagi erum við að fara af stað með safnskóla eftir aldri barnanna. Þetta verður óhefðbundið skólastarf, vettvangsferðir og leikir til að byrja með á meðan börnin eru að ná áttum og fyrir þau til að hittast.“

Val hverrar fjölskyldu

Jóhanna segir að aðstæður hjá fólki séu mismunandi og þess vegna hvetur hún foreldra til að ræða við börn sín og spyrja hvað þau vilji og hvar þau séu stödd.

„Þetta er val hverrar fjölskyldu fyrir sig en það er mikilvægt að við bjóðum að það séu valkostir og að börn geti komist í virkni og í einhverja rútínu með félögum sinum og vinum. Þau eru þá ekki endilega að mæta í skólann klukkan átta heldur erum við að hugsa að þau geti mætt síðar og séu með skertan skóladag.“

mbl.is