Kvika streymir á ný undir Svartsengi

Kvika streymir upp á ný við Svartsengi.
Kvika streymir upp á ný við Svartsengi. mbl.is/Arnþór

Land hefur risið hratt við Svartsengi síðustu daga, mun hraðar en áður en jarðskjálfahrinan varð 10. nóvember. Miðja landrissins er nálægt Svartsengi. Þrýstingur féll til muna þegar kvika hljóp frá svæðinu, austur undir Grindavíkurveg og yfir í Sundhnúkagígaröðina. Teygir kvikugangurinn sig undir Grindavík og út í haf í suðvesturátt.

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, segir þessa þróun hafa verið viðbúna.

„Þegar þrýstingurinn fellur þá myndast hagstæðar aðstæður fyrir kvikuna til þess að koma sér aftur fyrir á þessu svæði. Langlíklegasta skýringin á þessu er að kvika sé að streyma inn í þetta kvikusöfnunarsvæði sem hafði myndast fyrir,“ segir Freysteinn.

Vísindamenn hafa fylgst með landinu rísa í vikunni, en það var ekki fyrr en um helgina að merkin urðu skýr og greinileg því áframhaldandi hreyfingar við kvikuganginn trufluðu mælingar.

Freysteinn Sigmundsson.
Freysteinn Sigmundsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Merkin skýrari núna

Freysteinn segir ekki útilokað að þróunin haldi áfram og að þrýstingur byggist upp á ný við Svartsengi.

„Það er vel þekkt í eldfjöllum að eftir svona mikil umbrot þá eykst þrýstingur á ný í rótum eldstöðva. Það er bara spurning hversu hratt það er og hversu mikið það er. Stundum er eins og jarðskorpan sé að ná fyrra jafnvægi aftur. Annars staðar kann þetta að vera vísbending um áframhald,“ segir Freysteinn.

Freysteinn segir atburðarásina hafa verið svipaða undir Fagradalsfjalli, nema þá hafi kvikan verið á mun meira dýpi.

„Merkin eru skýrari núna því þetta kvikusöfnunarsvæði liggur grynnra, á um 5 til 6 km dýpi, en kvikusöfnunarsvæði undir Fagradalsfjalli var á 10 til 15 km dýpi,“ segir Freysteinn.

Spurður hvort þessi þróun auki líkurnar á eldgosi við Svartsengi, segir hann að það sé eitthvað sem verði skoðað í vikunni.

„Á meðan það er hreyfing á kvikunni í kvikuganginum, þó hún sé lítil, þá er enn þá kvika að bætast við þar. Þá finnst mér eldgos yfir núverandi kvikugangi líklegasta atburðarásin,“ segir Freysteinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: