Langlíklegasti staðurinn en útilokar ekki annað

Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands, segir …
Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands, segir nokkra skjálftavirkni í kvikuganginum undir Sundhnúkasprungunni þó hreyfingar séu ekki jafn stórar og í síðustu viku. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands, segir nokkra skjálftavirkni í kvikuganginum undir Sundhnúkasprungunni þó hreyfingar séu ekki jafn stórar og í síðustu viku.

Magnús segir í samtali við mbl.is að enn sé langlíklegast að það gjósi í Sundhnúkasprungunni þó ekki sé hægt að útiloka annað.

Hann segir að landsigið sem varð á Svartsengissvæðinu þegar kvikugangurinn myndaðist í Sundhnúkasprungunni og undir Grindavík passi við að kvikan hafi komið þaðan inn í ganginn.

Algengt að sjá flæði koma aftur inn

Nú er land að rísa á ný nokkuð hratt við Svartsengi en kvikugangurinn er ekki alveg hættur, að sögn Magnúsar.

„Það sem gerðist er að þrýstingurinn minnkaði mjög mikið við þessa atburði 10. nóvember. Það er algengt að sjá flæði koma aftur inn eftir svona atburði.

Það innflæði þýðir ekki að við ættum að reikna með að það fari að gjósa á nýjum stað. Það eru engir skjálftar sem fylgja þessu landrisi því það er engin spenna og það er enn verið að fylla í.“

Magnús segir ennþá möguleika á gosi en ef það yrði myndi það flæða upp um veikleikann í Sundhnúkasprungunni.

„Á meðan veikleikinn er í Sundhnúkasprungunni þá er það líklegasti staðurinn, þetta er bara eins og ef það er gat á þakinu hjá þér þá leitar rigningin þar inn.

Það er langlíklegasti staðurinn ef það kæmi til goss, þó það sé ekki hægt að útiloka annað.“

Hann segir engin gögn benda til þess að það muni gjósa á öðrum stöðum eins og í sprungum vestar og ef það myndi gerast myndi það sjást á skjálftavirkni með einhverjum fyrirvara.

„Ef til goss kæmi yrði það væntanlega lítið þar sem það er ekki mikið að fara þarna inn í ganginn. Sennilega má reikna með gosi í svipuðum dúr og fyrri gos á Reykjanesskaga undanfarið.“

Flóknara kerfi

Þá segir hann verulega óvissu uppi um hvernig atburðarásin muni þróast.

„Heldur kvika áfram að streyma þarna inn? Munum við sjá kviku fara aftur inn á svipuðum stað undir Sundhnúkasprungunni einhvern tímann á næstunni? Ef það myndi gerast myndi ég halda að við myndum þá aukningu í jarðskjálftavirkni.“

Segir Magnús einnig möguleika á einhverjum nýjum atburðum.

„Þessi atburðarás sem við sjáum núna að það er að þenjast út aftur á Svartsengissvæðinu og það er einnig aðeins að fara inn í þennan kvikugang. Ef þessi atburðarás er borin saman við Kröfluelda en þar byrjaði hratt landris eftir að atbruðarásinni lauk. Það byrjaði aldrei fyrr en hætt var að renna inn í ganginn.

Kerfið á Reykjanesskaganum er flóknara þannig að það er nokkur óvissa um það hvernig þetta mun þróast og við það verðum við bara að búa og fylgjast með frá degi til dags og mínútu til mínútu eins og gert er á veðurstofunni.“

Óvíst hvort landris í Svartsengi hafi áhrif á dýpi kvikunnar í kvikuganginum

Krist­ín Jóns­dótt­ir, fag­stjóri nátt­úr­vökt­un­ar á Veður­stofu Íslands, sagði á fundi al­manna­varna á laugardag að minnk­andi jarðskjálftavirkni og það að dregið hafi úr aðlögun hafi bent til þess að kvik­a væri kom­in mjög of­ar­lega í jarðskorp­una við kvikuganginn og að ekki þurfi mik­il átök svo hún kom­ist til yf­ir­borðs.

Magnús segir erfitt að segja til um það hvort hratt landris við Svartsengi nú hafi áhrif á dýpi kvikunnar í kvikuganginum. Hann segir það fara eftir þykkt kvikugangsins hvernig það þróast.

Nú eru komnir 9 eða 10 dagar síðan gangurinn myndaðist og hann hefur víkkað svollítið síðan en það má reikna með að meira en helmingi þeirrar kviku sem fór inn sé núna storknaður.

Þar sem berggangur er tveir metrar á breidd þá storknar hann á 10-15 dögum ef ekki kemur nein kvika inn í hann. Ef hann er breiðari þá tekur það mun lengri tíma og ef það flæðir inn í hann á einhverjum stað getur nýja kvikan haldið honum heitum og þannig geta leiðist haldist opnar.

Þar sem enginn hreyfing er þar storknar hann og það á við um endana þannig að gos í sjó er til dæmis mjög ólíklegur möguleiki í dag.

Reyna að láta ekkert koma sér að óvörum

Fólk leggur hart að sér við að reyna að skilja þetta og safna nýjustu gögnum. Það er fylgst með aflöguninni með GPS-tækjum og svo gervihnattamyndum sem unnið er úr sem og að jarðskjálftarnir eru vaktaðir mjög náið.

Það er ekki hægt að ákvarða um nein tímamörk í því sambandi. Við erum ekki að horfa á einhver atburð í 10. sinn og vitum hvernig kerfið bregst við.

Þetta er töluvert löng atburðarás en við því er ekkert að gera og við verðum bara að fylgjast með og reyna að láta ekkert koma okkur að óvörum.

mbl.is