Vilja veita palestínskum hælisleitendum vernd

Sema Erla Serdaroglu er formaður og stofnandi Solaris.
Sema Erla Serdaroglu er formaður og stofnandi Solaris. Ljósmynd/Aðsend

Solaris, hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttamenn á Íslandi, hvetja íslensk stjórnvöld til þess að veita öllum þeim umsækjendum um alþjóðlega vernd sem koma frá Palestínu vernd hér á landi án tafar. 

Vilja þau einnig láta „liðka fyrir frekari fjölskyldusameiningu en lögin kveða á um“.

„Nú standa yfir kerfisbundnar þjóðernishreinsanir á palestínsku þjóðinni á Gaza og á Vesturbakkanum og ísraelsk stjórnvöld standa fyrir skipulagðri eyðileggingu á palestínsku landsvæði í þeim tilgangi að taka það yfir,“ segir meðal annars í tilkynningu sem send er frá Semu Erla Serdaroglu, formanni Solaris, fyrir hönd stjórnar samtakanna.

Vilja láta liðka fyrir fjölskyldusameiningu

Í tilkynningunni segir að íslenskur almenningur hafi að undanförnu „krafist þess að íslensk stjórnvöld bregðist við yfirstandandi þjóðarmorði á Palestínu“ og að Solaris taki undir það.

„Stjórn Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi tekur undir þær kröfur og hvetur íslensk stjórnvöld til þess að veita öllum þeim umsækjendum um alþjóðlega vernd sem koma frá Palestínu vernd hér á landi án tafar. Þar að auki eru stjórnvöld hvött til þess að liðka fyrir frekari fjölskyldusameiningu en lögin kveða á um og flýta ferlinu eins og hægt er,“ segir meðal annars.

mbl.is

Bloggað um fréttina